Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 15:12:10 (5237)

2001-03-06 15:12:10# 126. lþ. 82.6 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera rétt að taka áskorun hv. þm. og leggja fram fsp. um þetta efni og fá fram í dagsljósið þá pappíra sem kallaðir hafa verið samkomulagið frá 1993. Á hitt vil ég leggja áherslu að ég er sammála hv. þm. um að það beri að efla störf vísindastofnana sem og annarra stofnana á landsbyggðinni. Þar deilum við sjónarmiðum og skoðunum. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á að það er á stefnuskrá Náttúruverndar ríkisins að dreifa störfum út á land. Sú stofnun hefur verið afskaplega ötul í því að ráða heimafólk til vinnu, hvort sem er í landvörslu eða öðru sem þeir hafa yfir að ráða. Það hæfir því ekki hv. þm. að gera lítið úr Náttúruvernd ríkisins sem deilir þessum skoðunum með okkur.