Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:13:37 (5249)

2001-03-06 17:13:37# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um að frv. fæli eingöngu í sér formbreytingu og lét síðan að því liggja í máli sínu að sveitarfélögin gætu varið söluhlut sínum eins og þau síðan lysti. Ég leyfi mér því, herra forseti, að beina til hans þeirri spurningu hvernig hv. þm. líti á þá bókun sem ráðuneytin gerðu sem þau líta svo á að sé hluti af þeim samningi en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í samningnum um kaup á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða mun ríkisvaldið ganga út frá að heildarverðmæti Orkubús Vestfjarða hf. sé 4,6 milljarðar kr., enda verði söluverðmætinu varið til þess að greiða niður skuldir viðkomandi sveitarfélaga og til lausnar bráðavanda viðkomandi sveitarfélaga í félagslega íbúðakerfinu í samræmi við það sem um hefur verið rætt.``

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, og bendi á að þetta er ekki í takt við það sem hv. þm. lét að liggja og bið gjarnan um skýringu á því.

Enn fremur er mér forvitni á að vita hvaða Evróputilskipanir það eru sem krefjast þess að fyrirtækið sé hlutafélagavætt. Það geta verið Evróputilskipanir sem krefjast aðskilnaðar á vinnslu og rekstri og það er hægt að gera með ýmsum félagsskap.

Herra forseti. Ég óska eftir því að heyra hvernig hv. þm. lítur á þá bókun sem ríkisvaldið lætur fylgja samningnum og lítur svo á að sé hluti af honum.