Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:17:30 (5251)

2001-03-06 17:17:30# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það væri afar fróðlegt að vita, og það er þá hæstv. iðnrh. sem gæti sjálfsagt upplýst það, hvaða stöðu þessi bókun, þessi gjörningur sem fulltrúar ríkisvaldsins létu gera varðandi frágang á þeirri ályktun að óska eftir því að Orkubú Vestfjarða yrði gert að hlutafélagi.

Að mínu viti er það deginum ljósara að þetta er kvöð og þetta er kvöð sem er skilyrðislaus og það er blekking að ætla að segja sveitarfélögunum annað. Ég tek hins vegar heils hugar undir sjónarmið hv. þm. Einars Guðfinnssonar að þetta er afar óeðlileg kvöð og hún er virkilega mjög gróf því að auðvitað eiga eignaraðilar að geta ráðstafað sínum hlut, eins og hv. þm. benti á í ræðu sinni, á sem hagkvæmastan hátt fyrir sveitarfélagið. En þau standa frammi fyrir þessu sem beinni kvöð að mínu viti, annars væri ekki verið að láta þetta fylgja svo afdráttarlaust með.

Ég vil því vara við því að það sé verið að gefa tálvonir um annað en styð í sjálfu sér það að sveitarfélögin standi á sínu og tel að tilgangurinn með þessu sé reyndar að selja og þá með þeim skilyrðum sem ríkið hefur sett og ríkið er með beinum og óbeinum hætti að þvinga ákveðin sveitarfélög til að að ganga til þessarar hlutafélagavæðingar og sölu, sérstaklega gagnvart einstökum sveitarfélögum, og hin geta ekki heldur staðið á móti.