Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:19:42 (5252)

2001-03-06 17:19:42# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst einkennilegt að vera að kalla tilboð af hálfu ríkisvaldsins kvöð. Þetta er tilboð og tilboð er auðvitað byggt á ákveðnum forsendum. Forsendurnar sem ríkið gefur sér í þessum efnum koma fram í bókun ráðuneytisstjóranna þriggja og eru lagðar til grundvallar því tilboði sem þar er lagt fram.

Menn þekkja það, held ég, almennt úr viðskiptum að tilboð ráðast mjög af því á hvaða forsendum þau eru gerð. Það að ríkið sé að leggja fram tilboð, sem felur í sér ákveðna verðmyndun, byggir m.a. á þeim forsendum sem ríkið er að leggja þarna upp. Það er engin kvöð sem það í sjálfu sér felur í sér, þetta er hins vegar tilboð af þessu taginu. Síðan er það auðvitað sveitarfélaganna að taka afstöðu til þess. Það er engin spurning um það að verðlagning orkubúsins verður m.a. til á þessum forsendum.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að allt sem ég hef sagt um þetta mál standi. Þetta frv. er í sjálfu sér sjálfstæður gjörningur. Það er verið að formbreyta þessu fyrirtæki. Ég reyndi að rökstyðja það dálítið í upphafi máls míns að ég tel að fyrir því séu efnisleg rök að formbreyta fyrirtækinu. En síðan fór ég yfir það í máli mínu áðan, vegna þess að ég tel að það sé nauðsynlegt að fara yfir málið í ljósi forsögunnar, sem er m.a. sú að menn hafa verið að reyna að finna lausnir á mjög alvarlegu vandamáli sem er skuldastaða þessara sveitarfélaga. Það sem vekur athygli í þessari umræðu er að þó að menn séu í öðru orðinu að gagnrýna það að verið sé að tengja sölu orkubúsins við eitthvert tiltekið skuldauppgjör þá hafa ekki verið settar fram aðrar hugmyndir.

Ég ítreka það að ástæðan fyrir því að þessi hugmynd er komin upp er einfaldlega sú að menn höfðu ekki á hraðbergi fleiri hugmyndir að því að finna lausn á skuldavanda sveitarfélaganna en þessa.