Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 17:41:54 (5256)

2001-03-06 17:41:54# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta frv. sé í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Ég tel hlutafélagaform á þessum rekstri sé skynsamlegt og því sé ekki ástæða til að amast við frv. á þeim forsendum.

Hins vegar hefur ýmislegt annað komið upp í umræðunni sem ástæða er til að velta fyrir sér. Mér finnst helsta umhugsunarefnið hvort það er rétt sem hér hefur verið sagt og engin ástæða er til að þræta um --- menn hljóta að vita um hvað þeir tala --- en hv. 1. þm. Vestf. staðfesti í ræðu sinni að hluta upphæðarinnar sem talað er um, sem greiðslu ríkisins fyrir eignarhlutina í Orkubúi Vestfjarða, væri ætlað að koma til móts við sveitarfélögin vegna skulda í félagslega húsnæðiskerfinu. Það er aðferð sem maður hlýtur auðvitað að staldra við og spyrja hvort geti verið eðlileg. Spurningin hlýtur að vera: Skulda sveitarfélögin sem eiga í orkubúinu öll jafnmikið? Er verið að gera þeim mishátt undir höfði? Græða kannski sumir á þessu? Fá þeir fjármagn sem þeir ekki þurftu? Skulda þeir kannski lítið eða ekki neitt í húsnæðiskerfinu og þurfa ekki á svona aðstoð að halda?

Síðan er hitt. Mörg sveitarfélög annars staðar á landinu skulda í þessu kerfi. Hvers vegna er þá tekið sérstaklega á þessu máli á Vestfjörðum? Fyrsta svarið sem manni dettur í hug er auðvitað að þarna sé kúfurinn og hann þurfi að lækka hann áður en farið verður að taka á annars staðar. Ég ímynda mér að það sé rétt svar. Ég tel samt sem áður að frá hendi ríkisins sé ekki eðlilega staðið að málum í þessu tilviki. Það þarf helst að hafa hlutina skýrari. Það á auðvitað ekki að koma til móts við sveitarfélög sem ekki þurfa á aðstoðinni að halda eins og manni virðist að hljóti að gerast með þeirri aðferð sem þarna á að grípa til.

Afleiðingarnar af því sem þarna er verið að gera eru kannski þær að þeir sem eiga hlut í Orkubúi Vestfjarða eru líklega þvingaðir, ég segi líklega þvingaðir, til að selja orkubúið nú þegar. Aðrir sem eiga fyrirtæki af sama tagi í landinu bíða flestir eftir því að sjá hvaða áhrif þær breytingar sem fram undan eru í orkugeiranum hafi. Ég veit ekki til að menn hafi verið að hlaupa til og selt eignir sínar í orkuveitufyrirtækjum að undanförnu, einfaldlega vegna þess að menn hafa talið að ýmsir möguleikar væru fram undan sem gætu jafnvel gefið þessum fyrirtækjum enn meiri arðsemi en fram að þessu.

[17:45]

Þess vegna er líka ástæða til að doka við og velta því fyrir sér hvort menn séu að ganga rétta braut í þessu ef þær upplýsingar sem hér hafa komið fram í dag eru réttar. Ég óska eftir því við hæstv. ráðherra að hún svari því hvort þær fullyrðingar sem hér hafa verið settar fram um að ríkið sé með því að bæta við einhverjum verulegum upphæðum inn í það verð sem á að greiða fyrir eignarhlut í Orkubúi Vestfjarða að þvinga sveitarfélögin á Vestfjörðum til að ganga til þessara samninga. Ég held að það sé rétt að menn segi nákvæmlega hvernig málið sendur og dragi ekki neitt undan í því.

Síðan langar mig til að spyrja eftir öðru. Ég held að allt saman sé nokkuð ljóst sem stendur í þessu skjali, en ég velti svolítið fyrir mér ákvæði til bráðabirgða I, þar sem segir: ,,Sameignarfélagar Orkubús Vestfjarða bera áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða sem stofnast hafa áður en hlutafélag er stofnað um rekstur þess. Innbyrðis skiptist þessi ábyrgð samkvæmt eignarhlutföllum l. desember 2000.`` Ég er búinn að lesa skýringarnar við þetta ákvæði og verð að viðurkenna að ég skildi ekki alveg hvaða gildi þetta hefur fyrir framtíðina. Þetta virðist vera ótímabundin skuldbinding sem fylgi mönnum inn í framtíðina og þarf kannski ekki að hafa áhyggjur af því ef ríkið kaupir þetta allt saman. En það hefur líka komið fram og kemur fram í þessum skjölum að ekki er endilega víst að ríkið kaupi þetta allt saman. Það geta verið aðrir eigendur. Og ríkinu gæti líklega dottið í hug að selja þetta fyrirtæki aftur. Það er hugsanlegt. Það er a.m.k. hugsanlegt á meðan sú ríkisstjórn er við völd sem er núna.

Ef ég hef skilið þetta ákvæði rétt, hvaða stöðu hafa þá þessir aðilar ef upp koma einhverjar skuldbindingar sem hafa af einhverjum ástæðum orðið meira virði í höndunum á þeim sem eiga þær en mönnum virðist vera í dag þó vaknað geti upp kröfur á þetta fyrirtæki? Mig langaði bara til þess að skilja þetta.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég ætla ekki að fara út í að ræða almennt um orkulögin sem eru væntanleg og annað sem tengist þeim. Mér finnst hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af því ef eigendur þessa orkufyrirtækis geti hugsanlega orðið fyrir skakkaföllum eða tjóni vegna þess að hin nýja skipan sem hæstv. iðnrh. ætlar að standa fyrir með nýju orkulögunum geti fært öðrum hagnað og betri stöðu sem eiga orkufyrirtækin en þeir sem eiga það orkufyrirtæki sem hér er til umræðu séu búnir að missa af þeim strætisvagni með þessum samningi. Mig langar til þess í lokin að biðja hæstv. ráðherra að útskýra skilmerkilega hvaða skoðun hæstv. ráðherra hefur á því hvort sú bókun sem nefnd var hér fyrr á þingfundinum og skuldbindingar sveitarfélaganna í gegnum umræðurnar eða viðræðurnar um það sem hér er komið á borð hv. Alþingis séu þannig að búast megi við því að öll sveitarfélögin muni ganga til þess að selja ríkinu eignarhluti sína í þessu fyrirtæki.