Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:10:53 (5259)

2001-03-06 18:10:53# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki svarað öllum þeim spurningum sem þingmaðurinn bar fram, enda beindi hann þeim til annarra en mín. En ég vil benda á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisvaldið er að kaupa fyrirtæki á þessu sviði. Ríkisvaldið keypti veitufyrirtæki á Siglufirði og meðal annars var hvatinn að því máli alvarleg skuldastaða þess kaupstaðar. Þess vegna var þá farið af stað með viðræður í málinu við ríkisvaldið sem leiddu til samninga og þess að ríkið keypti veiturnar ásamt virkjun af sveitarfélaginu þannig að þetta er ekkert nýtt. Þetta hefur gerst áður og menn hafa þá verið að bregðast við aðsteðjandi vanda á því svæði sem málið nær til. Vestfirðingar hafa verið að velta fyrir sér sínum málum og þeir hafa komist að þessari niðurstöðu, komu upp með þessar hugmyndir rétt eins menn gerðu á Siglufirði og það er svo sem ekkert öðruvísi en þar. Síðan verða menn að meta málið annars staðar eftir atvikum þar sem sambærileg mál kunna að koma upp. Það er ekki hægt að fullyrða um það hér og nú hvernig málsatvik eru. Það verður að fara dálítið eftir þeim.