Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:20:47 (5262)

2001-03-06 18:20:47# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mun hafa verið árið 1996 sem ég kom fyrst á þing og ég man að það mál sem mér fannst mest brenna á þá og ég fór m.a. í ræðustól út af voru fjárhagsvandræði sveitarfélaga, ekki síst á Vestfjörðum. Mér skildist þá að það væru einhverjar aðgerðir í vændum sem mundu leysa þessi mál, sem mundu leysa sveitarfélögin úr þeirri prísund sem þau voru komin í vegna fólksflótta. Fólksflóttinn var auðvitað eins og við vitum öll vegna neikvæðra afleiðinga kvótakerfisins sem hér hefur verið hafið í hæstu hæðir af ákveðnum stjórnmálaöflum.

Ég verð að segja í sambandi við þá Siglufjarðarleið sem hér er um rætt að ég held að í sjálfu sér hafi það verið ágætar aðgerðir á sínum tíma, enda snerust þær um aðra hluti en vandræði félagslega íbúðakerfisins. Vegna fólksflótta er almennur vandi um land allt og ég held að í mörg ár hafi staðið á því að gripið yrði til almennra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins út af þessum málum. Ég held að það hafi verið mjög nauðsynlegt að t.d. kvótaeigendur í landinu yrðu látnir greiða sérstakan skatt til að koma til móts við þennan vanda. Þetta er náttúrlega hrikalegt. Þetta hefur farið með sveitarfélögin. Þau hafa verið gjörsamlega svipt öllum möguleikum til að uppfylla lögboðnar skyldur sínar því að þau hafa í raun mörg hver verið á barmi gjaldþrots.