Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:23:51 (5264)

2001-03-06 18:23:51# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að ég hef nokkuð fylgst með þessum málum um margra ára skeið og það er ekki hægt að bera það til baka, ég tala nú ekki um á Vestfjörðum, að kvótakerfið átti alla sök á því hvernig fór. Þegar félagslegt húsnæði var byggt á Vestfjörðum voru öll þorp iðandi af lífi þar, mörg fiskvinnsluhús á hverjum stað. Svo hentaði það þeim sem áttu þennan kvóta að selja hann burt af svæðinu og eftir stóðu hnípin þorp í vanda. Fólk flutti auðvitað á eftir fiskinum og þar með stóð stór hluti af þessum húsum auður. Ég verð að segja að mér hefur alltaf þótt það ósæmandi að leggja þennan vanda á herðar þeim sem eftir urðu í þessum litlu þorpum.