Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:28:52 (5268)

2001-03-06 18:28:52# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég árétta að ég og minn flokkur viljum standa að því að gera það kleift að greiða úr þessum málum. Eins og ég sagði áðan höfum við lagt fram tillögur þar að lútandi. Það er stórfurðulegt eiginlega, miðað við verklag hæstv. ríkisstjórnar, þar sem hún gengur fram í einkavæðingu og hlutafélagavæðingu á öllum sviðum, að það skuli ekki vera opinn hugur fyrir því að horfast í augu við staðreyndir og afskrifa skuldir og hjálpa sveitarfélögunum til að komast út úr þessu af myndarskap þar sem ástandið er verst.

Ég veit þess mörg dæmi að fólk hefur haft hug á því að kaupa félagslegar íbúðir, en stendur frammi fyrir því að viðkomandi sveitarfélag getur vegna stöðu sinnar ekki fellt verðið á félagslegum íbúðum niður í það sem mætti kallast markaðsverð á svæðinu.

Ég vil að síðustu lýsa ánægju minni með það ef hæstv. félmrh. er með einhverjar lausnir í pokahorninu fyrir þessi sveitarfélög því að þetta er sennilega eitt af brýnustu málunum fyrir sveitarfélögin í dag, dreifbýlissveitarfélögin, sérstaklega þau sem standa frammi fyrir fækkun íbúa.