Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:31:04 (5270)

2001-03-06 18:31:04# 126. lþ. 82.7 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hér hafa spunnist heilmiklar umræður um frv. um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Ég efast ekki um að hv. þm. sem hér hafa verið með efasemdir og gagnrýnt frv. gengur gott eitt til fyrir hönd Vestfirðinga. Hins vegar er sá málflutningur á nokkrum misskilningi byggður, þ.e. þegar því er haldið fram að ríkisvaldið sé að þvinga einhverju upp á Vestfirðinga. Þannig er það ekki. Auðvitað er þetta ósköp sakleysislegt frv. um að breyta rekstri fyrirtækisins í hlutafélagaformið. Engu að síður er heildarhugsunin kannski stærri en sú og þess vegna hafa umræðurnar orðið meiri en ella.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Karl Matthíasson nefndi í framhjáhlaupi um þriggja fasa rafmagn, að það væri ekki til staðar eins og vera skyldi. Að þeim málum er unnið í nefnd sem vinnur að tillögugerð í því sambandi í ráðuneytinu. Ég vonast til að fljótlega verði komnar fram tillögur um hvernig skuli fara í það. En það er sannarlega ekki bara á Vestfjörðum sem þetta háir mjög atvinnurekstri og bændum. Þarna erum við að fást við ansi stórt vandamál og dýrt.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson talar um að hann sé andvígur því að sveitarfélögin selji hlut sinn og hann telji að sala verði a.m.k. ekki heimiluð næstu árin. Hann hyggst leggja fram tillögu þess efnis en mér finnst að þar með sé hann í og með að tala um að taka valdið af sveitarfélögunum. Auðvitað hljóta sveitarfélögin að eiga að hafa það á sínu valdi og geta tekið um það ákvörðun hvort þau selja eða ekki. Þannig sé ég þetta fyrir mér.

Það kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þ.e. mér fannst á honum eins og taka ætti eignarnámi allan virkjanarétt á Vestfjörðum en svo er alls ekki. Það sem kemur fram í upphafi 6. gr. er einungis að Orkubú Vestfjarða hf. heldur einkarétti þeim sem iðnrh. veitti sameignarfélaginu Orkubúi Vestfjarða. Það nær ekki lengra en verið getur að ég hafi misskilið hv. þm. Ég skildi hann a.m.k. á þennan veg.

Hv. þm. minntist einnig á 9. gr. samningsins og taldi að fresturinn væri kannski ekki nægilega langur fyrir sveitarfélögin til að selja hlut sinn miðað við það verð sem talað er um í dag, sem er 4,6 milljarðar. Ég tel aftur á móti bærilegt að hafa þarna eitt ár til umhugsunar. Auðvitað er ekki hægt að láta þetta gilda óendanlega. Það þarf einhvers staðar að setja mörkin og þau voru sett þarna. Að sjálfsögðu getur hv. nefnd þó farið yfir þetta mál.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um skattinn eins og stundum áður. Hann vildi að sett yrðu almenn lög í sambandi við skatt fyrirtækja eins og Orkubús Vestfjarða. Reyndar hefur hæstv. fjmrh. skipað nefnd sem fjallar um skattumhverfi orkufyrirtækja. Þar er tilgangurinn einmitt sá að reyna að koma á almennum reglum hvað þetta varðar. Ég vænti þess að annaðhvort á þessum vetri eða þeim næsta verði þau mál í höfn þannig að ég get að sumu leyti tekið undir ábendingar hans í þessu.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson kom inn á ákvæði í fjárlögum. Það var náttúrlega forsjálni að setja þetta ákvæði inn í fjárlögin því að við vorum farin að vinna að málinu þegar fjárlög voru samþykkt um áramótin.

Svo flutti hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson mikla og snarpa ræðu um orkumál almennt. Ég heyri að hann er að hita sig upp fyrir þá umræðu sem er fram undan í sambandi við ný orkulög. Nú styttist í að þau komi til þingsins. Mér fannst margt af því sem hann sagði þess eðlis að ástæða væri til að ræða það en ég veit bara ekki hvort við eigum að gera það núna. Ég held að við fáum tækifæri mjög fljótlega þegar frv. kemur fyrir þingið. Ég tek alveg undir það með honum að auðvitað þurfum við að hafa jöfnunina í huga. Rarik hefur tekið á sig miklar kvaðir en samkvæmt því frv. sem nú verður brátt lagt fram verður þessum kvöðum létt af öllum orkufyrirtækjum, þ.e. til að sjá um þessa jöfnun. Þau mál þarf því að leysa á annan hátt. Enn ein nefndin er einmitt að vinna að tillögugerð í sambandi við þau mál og ég vonast til þess að pólitísk samstaða sé um að við hlaupum ekki frá þeim skyldum okkar.

Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð. Ég tel að umræðan hafi ekki verið mjög neikvæð og geri mér vonir um að málið verði tiltölulega fljótafgreitt á hv. Alþingi. Það er beðið eftir því líka fyrir vestan.