Hönnun

Þriðjudaginn 06. mars 2001, kl. 18:41:00 (5273)

2001-03-06 18:41:00# 126. lþ. 82.8 fundur 505. mál: #A hönnunarréttur# (heildarlög) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um hönnunarrétt sem er á þskj. 792, 505. mál.

Með frv. er í stuttu máli stefnt að setningu nýrra laga um hönnunarrétt í stað viðamikilla breytinga á gildandi lögum um hönnunarvernd. Nauðsynlegt er að gera breytingar vegna tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 1998 um lögvernd hönnunar, tilskipun nr. 98/71/EB. Hliðsjón er höfð af einum alþjóðasamningi, þ.e. Genfarsamningnum, frá 2. júlí 1999 um breytingu á Haag-samningnum um alþjóðlega skráningu hönnunar.

Þá er á grundvelli samstarfs Norðurlandanna stefnt að lagasamræmi á þessu sviði og m.a. tekin inn ákvæði er svipar til ákvæða einkaleyfalaga. Þrátt fyrir að um verulegar breytingar á lagatexta sé að ræða eru breytingar varðandi efni verndarinnar, umfang hennar og meðferð umsókna um skráningu ekki miklar. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru annars vegar að ekki er gert ráð fyrir óskráðri hönnunarvernd í frv. og hins vegar að unnt verði að sækja um alþjóðlega skráningu hönnunar hér á landi. Verður þá unnt að sækja um skráningu hönnunar í öllum aðildarríkjum Genfarsamningsins með einni umsókn sem beint er annaðhvort til Alþjóðahugverkastofnunarinnar, WIPO, eða einkaleyfastofu hvers ríkis.

Genfarsamningnum svipar mjög til viðaukans við Madrid-samninginn um alþjóðlega skráningu merkja sem Ísland er aðili að. Gildandi lög um hönnunarvernd og framangreind tilskipun eru sniðin eftir sömu tillögum og eru grundvallaratriði laganna því ekki mjög frábrugðin tilskipuninni. Vegna ákvæða í EES-tilskipuninni um að taka þurfi ákvæði hennar upp í landsrétt EES-ríkja í síðasta lagi 1. október 2001 óska ég eftir afgreiðslu þessa frv. á vorþingi. Gildistaka laganna miðast við 1. október 2001, enda rétt að hafa nokkurn aðlögunartíma. Gert er ráð fyrir að hæstv. utanrrh. muni innan tíðar leggja fram till. til þál. um heimild til aðildar Íslands að Genfarsamningnum en afgreiða má þáltill. síðar en frv.

Frv. þetta er samið af nefnd sem iðnrh. skipaði í árslok 1999 þar sem Ásta Valdimarsdóttir lögfræðingur var formaður. Skiptist frv. í 11 kafla sem geyma almenn ákvæði; ákvæði um umsókn, um skráningu hönnunar, aðgengi að umsókn og upplýsingaskyldu; gildistíma skráðrar hönnunar, brottfall skráðrar hönnunar; áfrýjun, refsi- og bótaábyrgð o.fl.; réttarfar, ýmis ákvæði og ákvæði um alþjóðlega skráningu hönnunar og gildistöku. Auk þess að gefa yfirlit um frv. almennt þykir mér rétt að greina frá því að nýmæli er m.a. að finna í 1. og 2. gr., 10.--12. gr., 19 gr., 23. gr., 24. gr., 33. gr., 35. gr., 39. gr., 41. gr., 43. gr., 44. gr., 46. gr., 48. gr., 52. gr. og 54.--59. gr.

Samkvæmt 60. gr. er gert ráð fyrir því að ný lög um hönnunarrétt öðlist gildi 1. október 2001 en við það tímamark er miðað í EES-tilskipuninni um lögvernd hönnunar eins og áður er greint frá. Samtímis falla lög um hönnunarvernd, nr. 48/1993, með síðari breytingum, úr gildi. Ákvæði þeirra laga geta þó skipt máli í vissum tilvikum. Óskráður hönnunarréttur sem stofnast hefur fyrir gildistöku nýju laganna getur t.d. haldist um skeið samkvæmt ákvæðum eldri laganna um hönnunarvernd. Ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna frv.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Í því sambandi vil ég taka fram að drög að greinum frv. voru af hálfu nefndarinnar sem það samdi send ýmsum aðilum til umsagnar. Það ætti að geta greitt fyrir meðferð málsins í iðnn.