Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:35:51 (5277)

2001-03-07 13:35:51# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Síðan þetta mál var rætt í þinginu utan dagskrár í síðasta mánuði og hæstv. menntmrh. gaf það út að hann hefði áhuga á að veita leyfi til útboðs á skólahaldi og grundvalla það á 53. gr. grunnskólalaga hefur flækst fyrir mönnum með hvaða rökum hann hyggist fóðra slíka stjórnvaldsákvörðun. Það hefur vægast sagt ekki verið greiður aðgangur til lýðræðislegra skoðanaskipta við hæstv. ráðherra og fólk hans um þessi mál. Nefndarmönnum úr menntmn. hefur m.a. verið neitað um minnisblað frá ráðuneyti sem ég hygg að sé einstæður atburður, herra forseti.

Nú virðist með þessu bréfi hæstv. ráðherra að náðarhöggið sé endanlega fallið. Umræddur hverfisskóli skal settur í útboð upp á guð og lukkuna og hæstv. menntmrh. er búinn að fría sig allri ábyrgð, leysa lögboðinn hverfisskóla undan grunnskólalögum og skrifar nú bréf þar sem hann setur öll spjót á sveitarfélagið, einkum skólanefndina, sem á að vera eins konar kerra-plógur-hestur í þessari furðulegu krossför markaðsaflanna gegn skólakerfinu í landinu.

Enn hefur ekki heyrst hvað bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði gengur til annað en að þau vonast til þess að kannski muni einhver bjóða í verkið sem ætli að framfylgja einhverri spennandi skólastefnu en þau hafa engar hugmyndir um hver það ætti að vera enda þegar málið var kynnt á fundi í Hafnarfirði á dögunum hvernig ætti að meta væntanlegt útboð kom í ljós að þessi þáttur var harla léttvægur. Auðvitað átti kostnaðarþátturinn að vega þarna þyngst.

Hæstv. forseti. Hvernig á þingið að koma vilja sínum í þessu alvarlega máli á framfæri þegar ekki má einu sinni ræða málið inni í nefnd?