Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:39:53 (5279)

2001-03-07 13:39:53# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Mikil er málefnafátækt Samfylkingarinnar að hvað eftir sé annað verið að taka þessi mál upp á Alþingi. Það var nú einu sinni svo að á fundi nefndarinnar í síðustu viku fóru þingmenn Samfylkingar þess á leit að nefndin tæki þessi mál upp að eigin frumkvæði. Þau mál voru afgreidd lýðræðislega í þingnefndinni og ekki var meiri hluti til að verða við þessari ósk.

Þar að auki, og það kom líka fram í síðustu viku, liggja nokkur þingmál fyrir Alþingi sem snerta þetta mál, bæði frv. Samfylkingar og a.m.k. tvær fyrirspurnir. Þingmenn Samfylkingar verða einfaldlega að hafa biðlund þangað til þessi mál koma á dagskrá. Eftir að þeim er vísað til nefndar verða þau að sjálfsögðu rædd þar og tekin til vandlegrar athugunar. Mér finnst mjög sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, ef þingmenn Samfylkingar halda að þingsköpin eigi ekki alveg eins að gilda um þá og aðra á Alþingi. Mér fannst koma fram í því bréfi sem forseta var skrifað í síðustu viku að menn skildu ekki alls kostar þingsköp Alþingis því það var undarleg túlkun á þeim sem þar kom fram.