Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:51:33 (5286)

2001-03-07 13:51:33# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Ég hef margsinnis svarað því hvers vegna þetta mál var ekki tekið upp að frumkvæði nefndarinnar. Þingmenn Samfylkingar verða að fara að leikreglum eins og aðrir hér á Alþingi. Þetta er ekkert flóknara en svo. Það er enginn sem óttast faglega umfjöllun um þetta mál. Það er stutt síðan við ræddum þetta mál utan dagskrár á Alþingi og þá kom fram að ég teldi að hér væri um mjög gott mál að ræða sem yrði í framkvæmd tryggt í bak og fyrir með lögum og reglugerðum þannig að endanleg ábyrgð lægi hjá viðkomandi sveitarfélagi. Það er einu sinni svo að grunnskólinn er hjá sveitarfélögunum.

Málið snýst um að eitt af sveitarfélögum landsins, öflugt sveitarfélag, hefur ákveðið að gera ákveðna tilraun, þróa skólastarfið og brydda upp á nýjung sem er mjög spennandi. Þess var farið á leit við menntmrh. að hann yrði við þeirri beiðni og það var gert. Mér þætti nær að þingmenn fögnuðu því að verið væri að þróa skólastarfið með þessum hætti. Ég tel að það verði mjög spennandi að sjá niðurstöðurnar af þessari tilraun. En það er alveg ljóst að ráðherra hefur lýst því að endanlega ábyrgð á skólastarfinu sé að sjálfsögðu hjá sveitarfélaginu og engum öðrum. (Gripið fram í: Hún er reyndar í ráðuneytinu.)