Aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:59:27 (5289)

2001-03-07 13:59:27# 126. lþ. 84.1 fundur 357. mál: #A aðgengi og verðlagning opinberra rannsóknargagna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar hv. þingmanna vil ég fyrst hafa örfá orð um almennan aðgang að upplýsingum hjá hinu opinbera. Ríkisstjórnin hefur fyrir löngu mótað almenna stefnu um aðgang að upplýsingum hjá hinu opinbera, bæði hvað varðar rétt almennings til aðgangs að þeim gögnum sem hið opinbera býr yfir sem og um það hvaða upplýsingum hið opinbera ætti að leggja áherslu á að miðla að eigin frumkvæði.

Að því er varðar upplýsingaskyldu stjórnvalda sér stefnumörkunar um hana m.a. stað í löggjöf á borð við upplýsingalögin frá 1996 og stjórnsýslulögin frá 1993 og lögin um aðgang að miðlun upplýsinga um umhverfismál frá sama ári. Samkvæmt upplýsingalögum var mörkuð sú stefna að öll gögn í vörslu stjórnvalda skuli með nokkrum takmörkunum vera almenningi aðgengileg. Sérstaða þeirra felst í því að upplýsingarétturinn er virkur án tillits til ástæðna eða hagsmuna þess er eftir þeim leitar. Þetta er meginregla upplýsingalaganna, en hún þarf eðli málsins samkvæmt að sæta nokkrum takmörkunum vegna lögmætra hagsmuna bæði einkaaðila og hins opinbera af að verja upplýsingar aðgangi.

Minni takmörkunum sætir svo réttur þess sem á sérstaka og einstaklingabundna hagsmuni af aðgangi ef svo fram gengur af sams konar reglu stjórnsýslulaga. Aðgangur á þessum grundvelli er ókeypis, en afritatöku má þó afgreiða á kostnaðargrundvelli.

Að því er varðar miðlun upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda má vísa til þess að ríkisstjórnin markaði þegar á árinu 1996 ákveðna stefnu í málefnum upplýsingasamfélagsins og kom á fót sérstöku þróunarverkefni til fimm ára til að vinna að framgangi þess. Því stýrir sérstök verkefnisstjórn sem starfar á vegum forsrn.

Meðal þeirra markmiða sem stefnunni voru sett var að löggjöf, reglur og vinnubrögð stjórnsýslunnar skuli endurskoðuð með tilliti til upplýsingatækni, til að örva tæknilegar framfarir og til að vernda réttindi einstaklinga og að upplýsingar verði almenningi aðgengilegar án tillits til efnahags og búsetu. Sérstaklega ber að huga að nýtingu upplýsingatækninnar við miðlun opinberra upplýsinga og gera öll upplýsingakerfi ríkisstofnana þannig úr garði að hægt verði að sækja þangað upplýsingar um lög, reglur og réttindi, skyldur og þess háttar um tölvunet og jafnframt verði hægt að reka erindi sín og fylgjast með framgangi mikilvægra mála o.s.frv. með þeim hætti.

Þessi stefnumörkun gefur til kynna að íslensk stjórnvöld hafi tileinkað sér framsækið hugarfar gagnvart þeim möguleikum sem upplýsingatæknin býður upp á og sett sér háleit markmið í því skyni. Stefna ríkisstjórnarinnar var enda sett fram undir því metnaðarfulla formerki, eins og þar segir, með leyfi forseta: ,,Að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.``

Í ljósi þess að tölvueign Íslendinga og internetnotkun mun samkvæmt niðurstöðum kannana vera með því mesta sem þekkist í heiminum má segja að fyllilega sé stætt á því að stjórnvöld hafi sett sér metnaðarfull markmið um rafræna miðlun upplýsinga og fyrir dyrum stendur átakið að bæta þjónustu við almenning með nýjum og endurbættum stjórnarráðsvef.

Um aðgang að rannsóknargögnum sérstaklega og um aðgang að vísindalegum rannsóknargögnum kunna hins vegar að gilda sérsjónarmið sem hin almenna stefnumörkun, sem lýst hefur verið hér að framan, kemur e.t.v. ekki nema að takmörkuðu leyti á móts við. Þar getur út af fyrir sig ýmislegt komið til, svo sem samkeppnissjónarmið, verðgildi upplýsinga, hagsmunir þeirra sem rannsóknir vinna, hagsmunir annarra en opinberra aðila sem taka þátt í rannsókn eða kosta hana og fleira í þá veru sem óhjákvæmilegt er að verði tryggilega gengið frá.

Aðgangur að og verðlagning rannsóknargagna hefur verið til umræðu milli ráðuneyta og meðal stofnana um nokkra hríð. Málið brennur eðli þess samkvæmt mest á þeim stofnunum sem kosta rannsóknir eða standa fyrir þeim og þeim ráðuneytum sem fara með málefni þessara stofnana. Það er ljóst að það hlýtur að teljast til æskilegrar stefnu og sé almennt æskilegt að samræmdar reglur gildi um aðgengi að rannsóknargögnum og að gjaldtaka fyrir þau byggist á sömu grundvallarsjónarmiðum. Í aðalatriðum þarf að taka afstöðu til þess í hvaða mæli eigi að takmarka eða opna aðgengi að rannsóknargögnum og að hvaða marki gjaldtaka eigi að koma fyrir aðgang.

Ríki heimsins fylgja mismunandi stefnum í þessum efnum. Til að mynda hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum haft að leiðarljósi um árabil að rannsóknargögn sem kostuð eru af almannafé skuli að meginreglu til vera aðgengileg og ekkert gjald komi fyrir slíkan aðgang. Annars staðar og þá sérstaklega í aðildarlöndum Evrópusambandsins hefur aðgengi almennt verið takmarkaðra og upplýsingar og gögn verið seld. Ég hneigist fyrir mitt leyti mun heldur að hinni svokölluðu amerísku leið og raunar hefur stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, bæði eins og hún birtist í upplýsinga- og stjórnsýslulögum eins og áður er rakið og í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins, verið í þeim anda að takmarka beri öll höft og tálma og það felist í þeim ávinningi að sem flestir geti með sem minnstum kvöðum og tilkostnaði fært sér í nyt upplýsingar og niðurstöður rannsókna sem gerðar eru á kostnað skattborgara.

Fjmrh. hefur nýlega skipað nefnd til að móta almenna stefnu um hvort og þá hvernig upplýsingar sem verða til hjá einstökum stofnunum ríkis og sveitarfélaga og nýst geta stofnunum, fyrirtækjum og sveitarfélögum skuli verðlagðar. Ætla má að vinna þeirrar nefndar tengist þeim viðfangsefnum sem ég hef hér lýst og geti því komið að gagni, en á hinn bóginn er ljóst að verðlagning rannsóknar- og vísindagagna er allsérstakt mál. Rannsóknastofnanir ríkisins og Rannsóknaráð hafa kallað eftir stefnumörkun stjórnvalda í þessum efnum og ég hef því rætt það við menntmrh. að ráðuneyti hans, sem er ráðuneyti vísinda og rannsókna, taki að sér að leiða þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég vil enn ítreka hér að þetta er vandasamt verk, mjög vandasamt verk sem felur í sér að skoða þarf mörg atriði, lagaleg og fjárhagsleg, ofan í kjölinn.