Forvarnastarf gegn sjálfsvígum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:23:12 (5299)

2001-03-07 14:23:12# 126. lþ. 84.3 fundur 437. mál: #A forvarnastarf gegn sjálfsvígum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Hv. 15. þm. Reykv. spyr hvaða forvarnastarf sé unnið á vegum ráðuneytisins gagnvart þeim sem eru í sjálfsvígshugleiðingum og sjálfsvígshættu. Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt áherslu á mikilvægi forvarna og fræðslu í þessu sambandi. Benda má á, eins og hv. þm. kom reyndar inn á í ræðu sinni, að í drögum að heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er lögð var fram á Alþingi fyrir jól kemur fram sú stefna stjórnvalda að dregið verði úr sjálfsvígum um allt að 25% á tímabilinu.

Á vegum heilbrigðisyfirvalda hefur verið unnið fjölþætt starf á þessu sviði og ég vil nefna eftirfarandi verkefni:

Geðrækt er samvinnuverkefni Geðhjálpar, heilbrrn., landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Hér er um víðtækt verkefni að ræða sem snýr m.a. að uppbyggingu á geðheilsu og forvörnum. Unnið er að fræðslu og miðlun upplýsinga sem beinist fyrst og fremst að ungu fólki.

Á vegum landlæknisembættisins er starfandi nefnd sem falið er að leggja fram tillögur til stefnumótunar á sviði forvarna gegn sjálfsvígum og er Högni Óskarsson geðlæknir formaður nefndarinnar. Tillögur nefndarinnar hafa verið sendar til umsagnar en þær miða að því að draga úr tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna. Nefndin hefur samvinnu við fjölda aðila úr heilbrigðiskerfi, skólakerfi, dómskerfi, frá kirkjunni, lögreglu og sjúkraliði, neyðarlínu og sjálfboðaliðahópum.

Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir að kjarni sjálfsvígsforvarna verði í þverfaglegum teymum sem vinna út frá heilsugæslustöðvum um land allt eða út frá geðdeildum. Unnið er að þróun rannsóknaráætlunar í samvinnu við bandaríska vísindamenn þar sem tekin verða viðtöl við aðstandendur þeirra sem framið hafa sjálfsvíg hér á landi og áhættuþættir sjálfsvíga kannaðir. Nefna má að verulega skortir á þekkingu á áhættuþáttum sjálfsvíga en greinargóð vitneskja er undirstaða góðra forvarna. Rannsókn sem Vilhelm Norðfjörð hefur gert á hárri tíðni sjálfsvíga á Austfjörðum mun birtast innan tíðar og er vonast til að niðurstöðurnar auki skilning á viðfangsefninu og með hvaða hætti árangursríkast er að vinna að forvörnum á landsvísu.

Á heimasíðu landlæknisembættisins hefur sl. mánuði verið ítarleg umfjöllun geðlæknis um þunglyndi en þessi sjúkdómur er talinn einn af áhættuþáttum sjálfsvíga. Embættið helgaði þemamánuð á síðasta ári umfjöllun um þunglyndi og stuðlaði það að mikilli umræðu um sjúkdóminn í samfélaginu. Sú umræða stuðlaði m.a. að stofnun sjálfshjálparhóps á vegum Geðhjálpar.

Heilbr.- og trmrn. hefur á undanförnum árum styrkt fjárhagslega ýmsa starfsemi á sviði forvarna gegn sjálfsvígum. Ekki eru öllum ljós hin sterku tengsl á milli áfengis-, vímuefnaneyslu og sjálfsvíga. Með því að efla forvarnir á sviði áfengis- og vímuvarna er lagt lóð á vogarskálir til að koma í veg fyrir sjálfsvíg.

Vegna þess hversu þeir sem gert hafa tilraun til sjálfsvígs eru í mikilli hættu er nauðsynlegt að tryggja þessum einstaklingum góða meðferð og eftirfylgni. Við komum inn á það hér í fyrirspurnatíma fyrir viku. Til þess að svo sé þurfa geðdeildir og bráðadeildir að vera vel í stakk búnar til þess að sinna hlutverki sínu.

Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn og fullvissa hana um að ég mun áfram gera mitt til að unnt sé að byggja upp enn öflugri forvarnir á þessu sviði en gert hefur verið fram að þessu.