Umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:48:30 (5310)

2001-03-07 14:48:30# 126. lþ. 84.4 fundur 473. mál: #A umönnunargreiðslur vegna hjartveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrst út af reglugerðinni. Hún birtist 7. febrúar en fyrirspurnin kom fram 21. febrúar svo að það sé alveg á hreinu. Dálítils misskilnings gætir hjá hv. þm. varðandi svör mín. Ég sagði áðan að 82 börn væru í 1. flokki varðandi umönnunarmat og í þeim flokki væru langveik börn með fjölþætta sjúkdóma þannig að það væri ekki eitt barn með hjartasjúkdóm, það væru mjög mörg börn en eru með fjölþætta sjúkdóma. Þarna er verið að útvíkka reglugerðina þannig að hv. þm. fær eflaust tækifæri til að kynna sér hana. Ég get ekki farið inn í það mál nú í þessum fyrirspurnatíma.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr mig um fjárstuðning við fjölskyldur langveikra barna. Þá vill svo til að næsta fyrirspurn, sem er frá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, er um það málefni svo að við höfum tækifæri til að ræða það en það hefur margt breyst í þeim efnum núna á undanförnum missirum. Ríkisstjórnin samþykkti stefnumótun 1998 og hefur verið unnið eftir henni. Síðan hafa verið settir í það tugir milljóna og ég hef tækifæri til að svara því strax á eftir þegar hv. þm. kemur með þá fyrirspurn.