Fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:58:03 (5313)

2001-03-07 14:58:03# 126. lþ. 84.5 fundur 474. mál: #A fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Enn þá vantar mikið á að við getum sagt að við stöndum jafnfætis öðrum Norðurlandaþjóðum þegar við erum að bera saman réttindi og fjárstuðning við fjölskyldur langveikra barna. Þó að mikið hafi áunnist og víða verið komið við eins og hæstv. ráðherra hefur lýst og nýlega hafi verið gerð reglugerðarbreyting þá hefur sú reglugerð því miður ekki verið kynnt betur en svo að hún hefur farið fram hjá mér eins og fleirum. Maður þakkar það sem gert er, en mikið vantar upp á. En það er almennur vilji til úrbóta, það vitum við öll. Það þarf að koma kjarabótum foreldra langveikra barna inn í almenna kjarasamninga. Það þarf að auka rétt foreldra til að vera með langveikum börnum og það séu ekki eingöngu 7--10 dagar sem þeir megi vera heima á launum heldur þarf að lengja þann tíma.