Fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:00:33 (5315)

2001-03-07 15:00:33# 126. lþ. 84.5 fundur 474. mál: #A fjárstuðningur við fjölskyldur langveikra barna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Mér finnst brýnt að tryggja að foreldrar langveikra barna verði ekki fyrir tekjumissi og verði ekki fyrir réttindamissi. Það þýðir að það gæti þurft að mismuna í greiðslum til foreldra, en að sama skapi yrði þá að mismuna í innkomu inn í tryggingakerfið sem yrði reist. Ég hef sett fram þá hugmynd sem hefur verið rædd innan BSRB að þetta yrði gert í gegnum fæðingarorlofssjóðinn og rétturinn þannig tryggður. Og ég fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrrh. tók ómakið af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og svaraði því í ræðu sinni að hún sæi þetta sem raunhæfan kost í stöðunni. Ég vil þess vegna sérstaklega fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir þær tillögur sem voru settar fram af hálfu BSRB og ég hef áður gert grein fyrir því í fjölmiðlum, því að þarna held ég að sé komin raunhæf leið til úrbóta.