Flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:35:08 (5332)

2001-03-07 15:35:08# 126. lþ. 84.7 fundur 463. mál: #A flutningur verkefna eða stofnana til landsbyggðarinnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Iðn.- og viðskrn. og ráðgjafarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers ehf. gerðu með sér verksamning um úttekt á sjö stofnunum ráðuneytisins með tilliti til þess hvort hægt sé að flytja starfsemi þeirra eða einstök verkefni að hluta til eða í heild sinni út á landsbyggðina. Stofnanirnar sem um er að ræða eru eftirfarandi: Fjármálaeftirlitið, Iðntæknistofnun, Löggildingarstofan, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Samkeppnisstofnun, Einkaleyfastofan og Orkustofnun.

Verkefnið var m.a. liður í því að uppfylla ákvæði þál. um stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Ég vek athygli á því, herra forseti, að ráðuneyti byggðamála var fyrst að láta hefja þá vinnu seint á síðasta ári. En í þessari þál. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.``

Greining ráðgjafa PricewaterhouseCoopers fólst fyrst og fremst í því að koma auga á þá þætti sem hafa áhrif á að hægt sé að færa verkefni úr stað og telja upp þau tækifæri sem finna á innan hverrar stofnunar. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir þessa skýrslu. Ég tel að hún sé mjög vel unnin, en það verður að segja alveg eins og er að þetta er enn ein skýrslan um möguleika á að flytja störf eða stofnanir frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðarinnar sem hefur verið að tapa mörgum störfum.

Einnig má benda á að í september 1999 var unnin skýrsla um nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni, sem var forverkefni sem unnið var fyrir Byggðastofnun, forsrn. og Iðntæknistofnun. Þá voru mörg og fögur orð höfð um þessa skýrslu. M.a. sagði hæstv. forsrh. að þarna væri á ferðinni ný hugsun og ný vinnubrögð sem ættu að gagnast landsbyggðinni til sóknarfæra í atvinnu- og byggðamálum, þarna væri því um að ræða virka byggðastefnu. Ég bið síðan hv. þm. að hugsa til þeirra starfa sem bent er á í þeirri skýrslu, hvert þau hafa verið flutt. Ég held að ekki eitt einasta starf hafi verið flutt.

Herra forseti. Vegna þeirrar skýrslu sem unnin var fyrir iðnrn. hef ég leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

1. Hversu mörg störf eru ekki staðbundin við höfuðborgarsvæðið og mætti þar með flytja út á land samkvæmt úttekt ráðgjafarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers ehf. á möguleikum á flutningi einstakra verkefna eða stofnana iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins til landsbyggðarinnar?

2. Hvernig ætlar ráðherra að fylgja þessari úttekt eftir þannig að einhver störf flytjist út á land?

Herra forseti. Það er nú kannski aðalatriðið sem felst í seinni spurningunni. Hér er komin fram enn ein skýrslan. Hvernig á að vinna úr þessu? Um það fjallar fyrirspurnin.