Aðgöngugjöld að þjóðgörðum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 15:59:33 (5345)

2001-03-07 15:59:33# 126. lþ. 84.9 fundur 470. mál: #A aðgöngugjöld að þjóðgörðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: Mun ráðherra beita sér fyrir því að tekin verði upp aðgöngugjöld að þjóðgörðum, sbr. heimild í 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999?

Því er til að svara að það er rétt sem hér kom fram, að víða er aðstaða og aðgengi ferðamanna að helstu náttúruperlum landsins í ófullnægjandi ástandi. Við höfum verið að skoða þau mál nokkuð vel upp á síðkastið og erum að leggja meira framlag til þessara svæða.

[16:00]

Hv. fyrirspyrjandi nefndi þjóðgarðinn í Skaftafelli. Það er ágætt að það komi fram að verið er að leggja verulega aukið fjármagn til hans á árinu 2001. Það kom m.a. fram núna fyrir stuttu hjá þjóðgarðsverði, Ragnari Frank, á opnum borgarafundi á Höfn í Hornafirði, að verið er að huga að því hvernig eigi að nýta þá peninga og að mjög brýnt væri að fá aukið fjármagn til þjóðgarðsins í Skaftafelli.

Á árinu 2000 var framlag Náttúrunverndar ríkisins til þessa málaflokks, þ.e. fjölsóttra ferðamannastaða og uppbyggingu þjóðgarða, um 6 millj. kr. Þá fékk Ferðamálaráð 35,8 millj. kr. í þessi verkefni og einhver fjárhæð var líka á vegum Vegagerðarinnar. Á yfirstandandi ári hefur Náttúruvernd ríkisins 25 millj. til málaflokksins, þ.e. fór úr 6 millj. í 25 millj. og er hækkun upp á 300%, þó kannski sé óréttlátt að tala um prósentuhækkanir í þessu sambandi, og Ferðamálaráð hefur 47,6 millj. og síðan kemur óskilgreind upphæð frá Vegagerðinni. Við erum því að bæta við tugum millj., við erum að fara úr um 40 millj. upp í 70 millj. á yfirstandandi ári, fyrir utan það sem kemur inn í gegnum Vegagerðina. Það er því verið að auka verulega fjármagn til fjölsóttra ferðamannastaða, sem er mjög gott.

Í tengslum við fjárlagagerðina á árinu 1999 var skipaður starfshópur til að skoða þessi málefni verðandi aðgöngugjald að friðlýstum svæðum. Það voru 15 millj. settar inn í frv. sem áttu að innheimtast með gjöldum af friðlýstum svæðum. Í þeim starfshópi sem ég skipaði til þess að útfæra hvernig væri hægt að ná þessum 15 millj. var Þórður H. Ólafsson, skrifstofustjóri í umhvrn., Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, Magnús Oddsson, ferðamálastjóri hjá Ferðamálaráði, Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjmrn.

Nefndin skoðaði þetta sérstaklega og í áliti hennar kemur fram að mjög fáir staðir koma landfræðilega til greina varðandi það að taka gjald. Það er vegna þess að erfitt er að halda utan um aðstreymi ferðamanna. Það er erfitt vegna þess að annars þyrfti að setja upp miklar girðingar. En Skaftafell og Ásbyrgi eru þó í þeim hópi sem kemur til greina að taka svona gjald af. Hins vegar er ferðamannatíminn stuttur og kostnaður við innheimtu nokkuð hár og jafnvel erfiður í framkvæmd og hætt er við að innkoma vegna aðgöngugjalds yrði ekki ýkja mikil. En nefndin benti á staðina Ásbyrgi, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss. Hún bendir á að ef á að ná 15 millj. væri sniðugast og einfaldast að taka það allt á Gullfossi vegna þess að þangað kemur svo stór hópur. Ef gjaldið væri 200 kr. og þá innheimtust 20 millj. og 5 millj. færu í að innheimta það með starfsmanni er hægt að ná þessum 15 millj. kr. Það þyrfti hins vegar að breyta lögum til þess að geta gert þetta.

Nefndin skoðaði líka gistináttagjald en það er tekið mjög víða. Þá er sett gistináttagjald til þess að borga fyrir uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum. Það er tekið í Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Færeyjum og Flórída, Frakklandi og Spáni og það gjald er t.d. í Sviss 55--70 kr. á nóttina. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Aðilarnir úr ferðaþjónustunni höfnuðu því að taka upp aðgöngugjald að náttúruperlum og höfnuðu einnig gistináttagjaldinu. En t.d. fulltrúi Náttúruverndar ríkisins var hlynntur báðum þessum hugmyndum. Niðurstaða mín eftir þetta var að ég mundi ekki beita mér núna fyrir því að taka upp þetta gjald. Hins vegar tel ég að það komi mjög vel til greina í framtíðinni, útiloka það alls ekki en vegna andstöðu hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni tel ég ekki rétt að ég beiti mér fyrir þessu núna á þessu stigi. En ég vil gjarnan efla umræðu um þetta.

Ég fagna t.d. ábendingum í skýrslu auðlindanefndar sem kom fram fyrir stuttu en þar er einmitt bent á það sem möguleika að innheimta gjald af fjölsóttum ferðamannastöðum.