Aðgöngugjöld að þjóðgörðum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:12:47 (5352)

2001-03-07 16:12:47# 126. lþ. 84.9 fundur 470. mál: #A aðgöngugjöld að þjóðgörðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég fagna mjög þeim umræðum sem hér hafa orðið. Ég finn að þeir þingmenn sem hér hafa talað taka almennt undir þá hugmyndafræði að þeir sem nota eiga að greiða. Það sé öllum í hag. En niðurstaðan núna vegna m.a. andstöðu ferðaþjónustuaðila á þessu stigi er að þá mun ríkið greiða, a.m.k. fyrst í stað. En ekki er útilokað að síðar verði tekið gjald t.d. þegar menn fara inn í þjóðgarða. Það er alls ekki útilokað.

Það er rétt sem hér kom fram hjá fyrirspyrjanda að það er mjög líklegt að ferðaþjónustan líti á það í framtíðinni sem hagsmunamál fyrir þjónustuna sjálfa að staðið verði vel að uppbyggingu og verndun þessara svæða vegna þess að þá vilja fleiri sækja þessi svæði heim.

Hér var líka komið inn á það hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það væri engin stefna, við hefðum enga stefnu um það hvernig við vildum hafa umhverfi okkar í framtíðinni. Það er ekki alls kostar rétt. Það er nýbúið, eða tiltölulega nýbúið að samþykkja svæðisskipulag miðhálendisins. Þar er mörkuð skýr stefna til næstu ára um það hvernig við viljum haga umhverfinu og skipulagsmálum, byggingarsvæðum o.s.frv. á hálendinu. Í grófum dráttum má segja að þar á að vernda miðjuna en hafa þjónustuna út til jaðranna.

Hér kom hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason inn á Geysissvæðið. Það er rétt sem kom fram hjá honum að ríkið er núna í samningaviðræðum varðandi það að kaupa stærra svæði upp á Geysissvæðinu. Við eigum mjög lítið svæði, einungis hverina og ekkert þar í kring, en við erum að reyna að kaupa stærra svæði.

Ýmsar leiðir hafa verið skoðaðar eins og hér hefur komið fram, aðgöngugjald að friðuðum svæðum, gistináttagjald og hvort hægt sé að taka einhvers konar gjald þegar ferðamenn koma inn í landið á flugvellinum. Allt er það annmörkum háð en niðurstaðan er almennt sú að hugmyndafræðin gengur út á að þeir sem nota greiði en við erum ekki komin lengra en það sem við erum í dag. Ég útiloka því alls ekki til framtíðar að við gerum eins og önnur lönd, þ.e. að við tökum gjald af þjóðgörðum.