2001-03-07 16:15:29# 126. lþ. 84.10 fundur 468. mál: #A yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég legg hér nokkrar spurningar fyrir hæstv. dómsmrh. vegna þeirrar alþjóðlegu umræðu og þeirra aðgerða sem alþjóðasamfélagið stendur nú að í viðleitni sinni við að koma böndum á fjölþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi. Nýverið bárust fréttir af því að Evrópusambandið hygði á aðgerðir gegn sölu á konum og börnum til kynlífsþrælkunar í Evrópu og í desember sl. var í Palermó á Sikiley ritað undir yfirlýsingu í nafni Sameinuðu þjóðanna sem á að vera til þess fallin að efla aðgerðir stjórnvalda þeirra þjóða sem aðild eiga að yfirlýsingunni, gegn fjölþjóðlegri glæpastarfsemi, þar með töldu mansali til kynlífsþrælkunar.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. dómsmrh.:

1. Er Ísland aðili að yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi sem undirrituð var í Palermó á Sikiley í desember árið 2000?

2. Hvað felur yfirlýsingin í sér er lýtur að skipulagðri verslun með manneskjur?

3. Er þess að vænta að aðild að yfirlýsingunni kalli á lagasetningu um efni hennar, svo sem verslun með manneskjur til kynlífsþrælkunar?

Þær ástæður sem við Íslendingar höfum til að huga sérstaklega að þessum málum getur að líta á nektardansstöðunum sem starfræktir eru hér á landi. Komið hefur fram í umfjöllun um málefni þeirra að margar af stúlkunum sem þar starfa muni vera frá Austur-Evrópu, og í nýlegum fréttum af fundi innanríkis- og dómsmálaráðherra ríkja Evrópusambandsins kemur fram að Evrópusambandið telji að hundruð þúsunda ungra kvenna og barna frá Austur-Evrópu séu flutt með ólöglegum hætti til Evrópusambandsríkjanna á hverju ári og mörg þeirra séu hneppt í kynlífsánauð.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú lagt fram tillögur sem miða að því að samræma viðurlög við sölu á fólki til kynlífsþrælkunar og skilgreiningar á þessum glæpum og yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna virðist líta málið sömu augum. Þess má geta að núgildandi löggjöf hér á landi er gölluð hvað þessi mál varðar, þar sem það er ekki refsivert samkvæmt gildandi lögum að tæla burtu til vændis einstakling sé viðkomandi orðinn 21 árs og fyrir liggi samþykki einstaklingsins, þ.e. að viðkomandi sé kunnugt um tilgang fararinnar. Ákvæði af þessu tagi væri óheimilt ef við Íslendingar værum aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1949, um afnám mansals, og ég get mér þess til að hin nýja yfirlýsing sé á sömu nótum og geri svipaðar kröfur til þeirra ríkja sem að henni standa.