Tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:32:15 (5359)

2001-03-07 16:32:15# 126. lþ. 84.11 fundur 500. mál: #A tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég furða mig á fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ég furða mig á þeirri vantrú sem hún hefur á sveitarfélögunum, þeirri vantrú sem hún hefur á kennurum og þeirri vantrú sem hún hefur á foreldrum og skólum. Bæði sem sveitarstjórnarmaður til margra ára og formaður skólanefndar, þá veit ég það og þekki að sveitarfélögin leggja mikinn metnað í sitt skólastarf og það eru skólanefndir sem fylgjast með því að réttur nemenda sé ekki fyrir borð borinn. Ég treysti sveitarfélögunum og ég treysti foreldrunum og þess vegna hefur það verið að foreldrar eru miklu nær skólunum í dag heldur en þeir voru, vegna þess að þeir hafa þá ábyrgð að fylgja börnunum sínum eftir og vilja þeim allt hið besta. Ég vísa á bug þeirri vantrú á fólkið sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni.