Tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 16:37:00 (5363)

2001-03-07 16:37:00# 126. lþ. 84.11 fundur 500. mál: #A tilraunaskólar og nýjungar í skólastarfi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég gef ekki mikið fyrir það þó að hæstv. menntmrh. hafi orðið undrandi á ræðu minni áðan. Það var nú bara hæstv. forsrh. hér í morgun sem sagði sem svo að síðar í dag gæfist tilefni til að ræða nákvæmlega þessi mál við hæstv. menntmrh. Ég hef ekki verið að túlka 53. gr., herra forseti, en ég vonaðist til að hæstv. ráðherra mundi túlka hana og segja okkur hvernig í ósköpunum hann styður einkaframkvæmd í Áslandsskóla á grundvelli 53. gr. sem fjallar um tilraunir í kennslustarfi.

Herra forseti. Ég er ekki á móti tilraunum í kennslustarfi. Ég er ekki á móti nýjungum í skólastarfi. Ég rek sjálf einkarekinn leikskóla og ég geri mikið af tilraunum í uppeldisstarfi mínu á börnunum mínum og gengur mjög vel. Ég vil ræða hér tilraunastarf í uppeldisstarfi og skólamálum. Og ég vil fá hæstv. menntmrh. til þess að ræða það til þess að leiða það í ljós að tilraunin sem gera á í Áslandsskóla er ekki tilraun með neitt annað en rekstrarform, einkaframkvæmd einkaframkvæmdarinnar vegna.

Það kemur fram í þessum forkostulegu útboðsgögnum um Áslandsskóla, að þar á nú ekki hugmyndafræðin að gilda mikið. Hún skiptir helmingi minna máli en verð þjónustunnar. Og menntunin og reynsla stjórnenda skiptir fimm sinnum minna máli en verð þjónustunnar. Hér er um að ræða tilraun á börnum til einkaframkvæmdar til þess að eigendur þessa ímyndaða skóla geti farið með einhvers konar arð út úr tilrauninni, því það er ekki eins og eigendurnir eigi ekki að fara með peninga frá þessari tilraun. Það kemur í ljós í þessum útboðsgögnum að þar er eigendunum og tilboðshöfunum gert það að setja niður ásættanlegan hagnað ásamt með öðrum kostnaði. Þetta er purkunarlaus tilraun til einkaframkvæmdar og einskis annars. Það eru börnin og foreldrar þeirra sem eru tilraunadýrin og það er á þessu fólki sem tilraunin bitnar.

Hæstv. menntmrh. stendur ekki vörð um tilraunir í skólastarfi með því að heimila þessa tilraun.