Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:35:37 (5366)

2001-03-08 10:35:37# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er vel við hæfi á þessum alþjóðabaráttudegi fyrir réttindum kvenna, 8. mars, að beina athyglinni að mannréttindum kvenna um víða veröld. Á alþjóðavettvangi hafa mannréttindi verið eitt af þeim málum sem við höfum lagt megináherslu á. Þótt margt hafi áunnist á sviði mannréttindamála á síðustu árum þá er enn mikið verk óunnið og víða er mikil fyrirstaða hjá stjórnvöldum að vinna að framgangi mannréttinda innan sinna landamæra. Mannréttindi eru alþjóðleg. Ekkert ríki veraldar hefur rétt til að kúga þegna sína. Við höfum því ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þeim sem ekki njóta grundvallarmannréttinda hvar sem er í heiminum.

Í umræðu á alþjóðavettvangi höfum við ávallt lagt áherslu á mannréttindi kvenna og barna. Við höfum tekið virkan þátt í umræðu um málefni kvenna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, bæði með ræðum í allsherjarþinginu og í mannréttindaráðinu.

Víða um heim stendur lýðræðið enn á veikum fótum og mannréttindi og réttarríki eiga undir högg að sækja. Efling lýðræðis og mannréttinda ásamt efnahagslegri velferð, frelsi og umburðarlyndi tryggir frið og friðsamlega sambúð þjóða. Þau ríki sem virða mannréttindi fara síður með ófriði og ofbeldi gegn eigin borgurum og nágrönnum sínum.

Með Vínaryfirlýsingunni frá 1993 var því slegið föstu að mannréttindi væru algild. Ekki er því hægt að réttlæta mannréttindabrot gegn konum með því að skírskota til trúarbragða, venju, hefða eða annars konar menningararfleifðar. Hinn almenni borgari, einkum konur og börn, er ávallt fyrsta fórnarlamb styrjaldarátaka. Það er bæði gömul saga og ný. Átökin og ofbeldið á Balkanskaga á síðasta áratug leiddu af sér margs konar voðaverk, fjöldamorð, nauðganir og ómannúðlega meðferð stríðsfanga. Óhugnanleg grimmdarverk voru framin þar á konum jafnt sem öðrum borgurum og mannréttindi þeirra fótum troðin.

Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á ráðstefnu Rannsóknastofu í kvennafræðum um konur og Balkanstríðin í Háskóla Íslands í síðustu viku sem utanrrn. styrkti. Á ráðstefnunni vorum við hvött til að leiða hugann að hinum óhugnanlegu atburðum sem áttu sér stað á Balkanskaga og hvernig koma megi í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Mikið uppbyggingarstarf hefur farið fram á Balkanskaga sem íslensk stjórnvöld hafa stutt með margvíslegum hætti, t.d. með þátttöku í friðargæslu á svæðinu. Utanrrn. hefur enn fremur styrkt Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna fyrir konur, UNIFEM, svo og starf UNIFEM á Íslandi og enn fremur kostað íslenskan starfsmann á skrifstofu UNIFEM í Kosovo í tólf mánuði.

Utanrrn. hefur einnig veitt umtalsverðar fjárhæðir til uppbyggingar og rekstrar þriggja kvennahúsa í Bosníu og Hersegovínu þar sem konum af öllum þjóðarbrotum hefur verið veitt margvísleg félagsleg aðstoð. Á síðasta þingi mannréttindaráðsins vöktum við sérstaka athygli á þeim takmörkunum sem konur í sumum ríkjum heims þurfa að þola á ferðafrelsi sínu bæði innan lands og utan. Aðskilnaður kynjanna er einnig enn við lýði í mörgum ríkjum, en slíkur aðskilnaður felur í sér ójafnrétti. Þessi mannréttindabrot eiga skilið meiri athygli af hálfu alþjóðasamfélagsins en hingað til hefur verið raunin. Efast má um að konur hafi notið alþjóðavæðingarinnar og hinna hröðu tækniframfara í sama mæli og karlar.

Ísland hefur staðfest alla helstu mannréttindasamninga sem varða mannréttindi kvenna, þar með taldar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég vil einnig sérstaklega minna á mikilvægi alþjóðasakamáladómstólsins fyrir framþróun hins alþjóðlega réttarkerfis, sérstaklega þeirra sem eiga undir högg að sækja og Ísland hefur nú þegar fullgilt stofnsáttmála dómstólsins og við höfum skorað á önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að gera slíkt hið sama. Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum var fullgiltur af okkar hálfu árið 1985 og það er sérstök nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með framkvæmd þessa samnings og íslensk stjórnvöld skila Sameinuðu þjóðunum reglulega skýrslum um framkvæmd samningsins hér á landi.

Að því er varðar þá spurningu sem hv. þm. kom inn á varðandi þann samning sem nýlega var staðfestur á Alþingi, þá var það gert í febrúar sl. þannig að við höfum ekki enn gefið okkur tíma til að kynna efni hans, en það er ljóst að önnur ráðuneyti þurfa einnig að koma að þeirri kynningu. Að því er varðar þróunarmál, þá ætla ég, herra forseti, að koma að því í síðari ræðutíma mínum.