Konur og mannréttindi

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 10:47:58 (5370)

2001-03-08 10:47:58# 126. lþ. 85.94 fundur 356#B konur og mannréttindi# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum segir orðrétt: ,,... mismunun gagnvart konum brýtur í bága við grundvallarreglur um jafnrétti og virðingu fyrir manngildi, hindrar þátttöku kvenna á jafnréttisgrundvelli í stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífi í löndum þeirra, hindrar aukna hagsæld þjóðfélags og fjölskyldu og veldur því að örðugra er fyrir konur að notfæra sér til fulls möguleika sína til þjónustu fyrir land sitt og mannkynið.``

Þessi samningur var undirritaður af Íslands hálfu eins og fram hefur komið hér árið 1980 og fullgiltur árið 1985. Samningurinn hefur ekki lagagildi og er ekki bindandi fyrir þjóðarrétt. Íslensk stjórnvöld hafa ekki frekar en önnur fylgt eftir ýmsum mikilvægum ákvæðum þessa samnings. Þau geta skipt konur miklu máli og varða réttarvernd og réttaröryggi.

Kvennabaráttan er alþjóðleg barátta þar sem konur eiga alls staðar undir högg að sækja. Það er alls staðar brotið á mannréttindum kvenna. Það eru mannréttindi að sjónarmið, reynsla og þarfir bæði kvenna og karla séu höfð að leiðarljósi við alla stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda. Það eru mannréttindi að konum sem sæta ofbeldi sé tryggður réttur til sanngjarnra og skilvirkra réttarúrræða. Það eru mannréttindi að konur og börn eigi greiðan aðgang að dómstólum landsins og mæti þar þekkingu og skilningi. Ofbeldi gegn konum og börnum er brot á mannréttindum þeirra. Kynbundinn launamunur er brot á mannréttindum kvenna. Herra forseti. Ég minni á það að enn í dag búa íslenskar konur við 18% lægri laun sem er einungis kynbundinn munur. Engin önnur skýring finnst á föstum 18% launamismuni karla og kvenna á Íslandi, svo betur má ef duga skal.

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995 var samþykkt yfirlýsing og aðgerðaáætlun í 360 liðum og í dag er við hæfi að minna íslensk stjórnvöld á áætlun þá sem þau eru skuldbundin að fylgja.