Samningur um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:00:08 (5375)

2001-03-08 11:00:08# 126. lþ. 85.1 fundur 498. mál: #A samningur um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um öryggi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna sem gerður var í New York 9. desember 1994.

Vegna þróunar alþjóðamála á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar aukið starfsemi sína verulega, og starfsmenn á vegum þeirra, auk tengdra starfsmanna, hafa sinnt friðargæslu víðs vegar um heim. Þetta aukna umfang í starfsemi Sameinuðu þjóðanna þrýsti á allsherjarþingið að samþykkja að leggja fram þann samning sem hér er til umfjöllunar. Í dag eru 50 ríki aðilar að samningnum, þar á meðal eru öll norrænu ríkin, að Íslandi einu undanskildu enn sem komið er.

Helstu efnisatriði samningsins eru að hann felur í sér skyldu til að tryggja öryggi og vernd starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og tengdra starfsmanna, eins og fram kemur í 7. gr. samningsins. Samningurinn mælir jafnfram fyrir um skyldu til að láta lausa eða afhenda starfsmenn sem teknir hafa verið til fanga eða hnepptir í varðhald, eins og kemur fram í 8. gr. Einnig er sú skylda lögð á aðildarríki að gera ýmsa glæpi refsiverða að landslögum, eins og fram kemur í 9. gr., og þeir glæpir sem eru raktir í 9. gr. eru að fullu refsiverðir samkvæmt íslenskum lögum og þess vegna þarf sem betur fer engar lagabreytingar hér á landi í tilefni af þessum samningi.

Hins vegar kallar aðild að samningnum á breytingu á ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu og hefur frv. um slíkar breytingar þegar verið dreift hér á hv. Alþingi og hæstv. dómsmrh. mun innan skamms mæla fyrir því frv.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.