Bókasafnsfræðingar

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:06:57 (5378)

2001-03-08 11:06:57# 126. lþ. 85.2 fundur 526. mál: #A bókasafnsfræðingar# (starfsheiti) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Við hv. þm. Jón Bjarnason höfum átt hér orðastað nokkrum sinnum um menntamál og önnur málefni. Mér finnst samt þessi ræða slá flestar þær ræður út sem hann hefur flutt um þennan málaflokk.

Það sem hér er um að ræða er að búið er að skilgreina og endurskilgreina þetta nám. Það er hvorki verið að fjalla um lögfræðinga né verkfræðinga og það er ekki heldur á döfinni í Háskóla Íslands, held ég, að breyta því námi þannig að það verði sérstök upplýsingafræði sem verði hluti af verkfræðináminu eða lögfræðináminu. Hér er um það að ræða að öll störf í bókasöfnum eru að taka á sig alveg nýja mynd og verið þróa þau söfn þannig að þau ná til mun fleiri þátta en áður fyrir tilstilli upplýsingatækninnar og verið er að mennta fólk sérstaklega til að sinna þeim málum á sviði bókasafna og annars staðar þar sem þetta menntaða fólk hefur tækifæri til að nýta menntun sína. En þetta snertir ekkert aðrar námsgreinar við Háskóla Íslands eða breytingar á inntaki í námi þar. Þótt menn noti tölvur þar við nám sitt og nýti sér tölvutæknina þá er alls ekki hægt að bera það saman við þessar breytingar sem eru að verða á námi bókasafnsfræðinga og upplýsingafræðinga.

Ég hins vegar hefði skilið það ef hv. þm. hefði fundið að því almennt að verið væri að lögvernda starfsheitið með þessum hætti. Ég hef sjálfur talað fyrir því hér að kannski sé ekki nein ástæða til þess fyrir okkur á Alþingi að setja lög sem vernda einstök starfsheiti. En sú umræða þarf að fara fram í víðara samhengi heldur en varðandi þetta mál. Ég held að sú breyting sem hér er verið að mæla fyrir endurspegli aðeins þá þróun sem er á þessu sviði og gefi þá til kynna það starfssvið sem þetta fólk sinnir sem hér er um að ræða.