Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:22:10 (5380)

2001-03-08 11:22:10# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:22]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir lipurð við fundarstjórn og enn fremur hæstv. ráðherra að koma til fundarins því að um er að ræða mál sem er mjög mikilvægt í rekstri sveitarfélaga og allri fjárhagslegri og félagslegri umgjörð í starfsemi þeirra.

Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar farið almennum orðum um þessa nýju leið sem hin svokallaða einkafjármögnunarleið og rekstrarleiga inniheldur og langaði í framhjáhlaupi að inna hæstv. ráðherra eftir skoðunum hans á því að sveitarfélög skuli í stórauknum mæli fara þessa leið við fjármögnun nýframkvæmda, þ.e. að þau séu leigjendur hjá stórverktökum sem eigi skólahúsnæði, leikskólahúsnæði og fleiri tegundir þjónustuhúsnæðis og að rekstraraðili skuli vera leigjandi hjá þessum verktökum í 25 ár. Ég fór nokkrum orðum yfir kosti og galla þessa fyrirkomulags. Mér finnst gallarnir vera býsna margir. Ég velti því til að mynda upp hvað gerðist að leigutíma liðnum, að 25 árum liðnum. Hver er þá samningsstaða leigjenda, þ.e. sveitarfélagsins í skóla? Hvað gerðist eftir tíu ár í leigutíma ef þarfir breyttust og leigutaki vildi gjörbreyta og endurbæta húsnæðið vegna nýrra þarfa og breyttra áherslna í skólastarfi? Samningsstaðan væri afskaplega erfið og leigutaki hefði í þessu sambandi öll ráð í hendi sér. Ég rifjaði það líka aðeins upp þannig að hæstv. ráðherra sé það ljóst að reynsla annarra þjóða af þessu fyrirkomulagi hefur verið mjög mismunandi, í mörgum tilfellum afspyrnuléleg. Ég vísaði til Bretlands í þeim efnum og raunar Danmerkur þar sem mál af þessum toga hafa verið mjög heit í allri hinni pólitísku umræðu og hefur sitt sýnst hverjum.

Ég lét þess hins vegar getið að þetta frv. út af fyrir sig leitar ekki hinna pólitisku svara við þessu og undirstrika að sveitarfélögum sé það í raun í sjálfsvald sett og á að vera það hvernig þau fjármagna sinn rekstur, þ.e. innan laga og reglugerða, og hvort þau fara þessa leið í uppbyggingu nýframkvæmda er auðvitað pólitísk ákvörðun heima í héraði. Sumir hafa haldið því fram, og ég ætla út af fyrir sig ekki að leggjast fyrir í þeim efnum, að í lagi sé að á einum eða tveimur stöðum á landinu reyni menn þetta fyrirkomulag og skoði.

En af því að ég nota hugtökin að reyna eða prófa eða gera tilraunir með, þá vil ég taka það skýrt fram að menn skulu ekki blanda því saman að gera tilraunir með steinsteypu eða börn. Ég er ekki að tala um það. Þá erum við komin inn á alveg nýtt svið. En í fjármögnun og uppbyggingu mannvirkja, steinsteypu og annarra þeirra efna sem notuð eru til slíkra verka, þá er ég út af fyrir sig opinn fyrir tilraunum í þá veru.

En nú bregður svo við að í auknum mæli hafa einstök sveitarfélög farið þessa leið og raunar er það þannig í heimabæ mínum að á síðustu missirum hefur tæpast það hús risið, skólahúsnæði eða leikskólahúsnæði, án þess að þessi leið sé farin og skuldbindingar í því sveitarfélagi sem er stórt á íslenskan mælikvarða en lítið á mælikvarða heimsins eru upp á 7 milljarða kr. Það er 7 milljarða kr. skuldbinding í þessu sveitarfélagi þar sem ársveltan er í kringum 4 milljarðar kr. Þetta kemur manni til þess að hugsa um það að slík leiga sé kannski of auðveld í sumum tilfellum fyrir sveitarfélög. Það er afskaplega létt verk að teikna hús og setja þau síðan á hinn almenna markað í trausti þess að einhverjir aðrir borgi brúsann, einhverjir aðrir fjármagni kostnaðinn og sveitarfélagið verði ,,aðeins`` leigutaki næstu 25 árin. En eftir því sem þeim húsum fjölgar sem byggð eru með þessum hætti, því meira gengur á rekstrarfé sveitarfélagsins því að greiða þarf þessa leigu og eftir því sem fleiri leiguhúsnæðin eru, því minna verður eftir til annarra verka hjá sveitarfélaginu.

En bara til þess að benda á hvers konar myndbirting getur orðið eins og sakir standa í þessum efnum þá hefur það sveitarfélag sem lengst hefur gengið í þessum efnum, Hafnarfjörður, birt fjárhagsáætlun sína á yfirstandandi ári. Þar er í byggingu í sveitarfélaginu stór og mikill skóli, Áslandsskóli, sem er þekktur af öðru núna í umræðum á hinu háa Alþingi og víðar. Og á svipuðum slóðum er einnig leikskóli. Verð á slíkum mannvirkjum, ef byggt væri með hefðbundnum hætti, væri sennilega 1,5 milljarðar kr. Í fjárhagsáætlun bæjarins er ekki að finna einn stafkrók, ekki einn einasta staf um það að bærinn hafi neinn kostnað af byggingu þessara mannvirkja. Hins vegar er að finna í fjárhagsáætluninni áætlun um það að sveitarfélagið ætli að hafa tekjur af þessum framkvæmdum úr áætluðum tekjum ríkisins af framlagi ríkisins úr jöfnunarsjóði. Með öðrum orðum ætlar sveitarfélagið að græða á því að byggja skóla upp á 1,5 milljarða. En kostnaðurinn sem sveitarfélagið hefur skuldbundið sig til þess að greiða næstu 25 árin er ekki 1,5 milljarðar, nei, hann er nærri 3 milljörðum því að leigan næstu 25 ár og notin eru framreiknuð til alls leigutímans og mun með öðrum orðum falla eitthvað á annað hundrað millj. kr. í rekstri sveitarfélagsins til þess að hafa þetta grundvallarhúsnæði í sveitarfélaginu til afnota næstu 25 árin.

Um það, herra forseti, snýst þetta frv. mitt. Mér hefur fundist afskaplega sérkennilegt, þegar það er alfa og omega allra hluta í rekstri sveitarfélags og opinberra aðila að almenningi séu ljósar þær skuldbindingar sem í er ráðist, að mönnum takist það hreinlega ekki með lestri ársreikninga og með lestri fjárhagsáætlana að átta sig á því eða glöggva sig á þeim skuldbindingum sem kjörnir fulltrúar eru að undirgangast fyrir sveitarfélagið. Að óbreyttu munu menn í ársreikningi hvergi sjá það í þessu sama sveitarfélagi að Hafnarfjarðarbær sé skuldbundinn upp á um það bil 7 milljarða kr. vegna framkvæmda af þessum toga, heldur verði það bara fært yfir rekstur á ári hverju. Þetta er náttúrlega fullkomlega óeðlilegt.

Nú veit ég, og það er þess vegna sem ég hef óskað sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra verði hér viðstaddur, að ráðuneyti hans í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, í svonefndri bókhaldsnefnd, í sambandi við vinnu að mótun nýrrar reglugerðar um ársreikninga og í undirbúningi að vinnslu nýrrar handbókar fyrir sveitarstjórnir hafa þessi mál verið mjög til skoðunar en það gengur afskaplega hægt að því er virðist að koma þeim málum á réttan kjöl. Þess vegna flutti ég þetta mál á síðasta þingi og endurflutti það núna í haust. Að athuguðu máli tel ég að hinu háa ráðuneyti væri akkur í því og gagn í því að Alþingi tæki af öll tvímæli og gerði það algerlega skýrt hver væri vilji löggjafans í þessum efnum, nefnilega sá að í þessum efnum eins og öðrum gæfu fjárhagsáætlanir og ársreikningar glögga mynd af áformum og síðan stöðu sveitarfélagsins á hverjum tíma og að hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hefðu stuðning af því og kláran og kvittan vilja til þess hvernig að slíkum málum ætti að standa.

[11:30]

Ég sagði það í fyrri ræðu minni og vil gjarnan að hæstv. ráðherra heyri að ég er ekki talsmaður þess að ráðuneyti sveitarstjórnarmála sé með puttana í einstökum sveitarfélögum í smáu og stóru. Ég er þeirrar skoðunar að löggjafarsamkundan eigi að setja skýrar, almennar og glöggar leikreglur um rekstur sveitarfélaga. Ég tel ráðuneytið eiga að sinna almennu eftirliti og styðja og styrkja sveitarfélögin í upplýsingagjöf og samhæfingu eins og kostur er en eigi ekki kássast upp á þau í smáu og stóru. Í þessum efnum er hins vegar ekki um það að ræða. Hér er af stað lagt með það í huga að regluverkið verði skýrt þannig að menn viti hvernig með eigi að fara.

Ég þarf svo sem ekki að orðlengja þetta. Hér fylgir stutt grg. sem gerir gleggri grein fyrir því hvaða lagagreinar ég legg til að breytt verði og gerðar skýrari. Ég vil trúa því að hæstv. ráðherra og aðrir hv. þm. sem hér hlýða á, þar á meðal fulltrúar úr félmn., séu jákvæðir fyrir þessari litlu en þó stóru breytingu á sveitarstjórnarlögum sem miðar að því að gera hlutina sýnilegri gagnvart almenningi. Hvað sem líður deilum um hlutverk ríkis og sveitarfélaga, opinberra aðila og einkaaðila, þá hygg ég að a.m.k. sé það ekki neitt deilumál að menn vilja að umsvif hins fyrrnefnda, hinna opinberu aðila, séu auðvitað öllum ljós og fjárhagslegum skuldbindingum ekki sópað undir teppið, ekki falin. Það er til hagsbóta fyrir sveitarstjórnarmennina sjálfa en fyrst og fremst fyrir þá sem borga þarf brúsann.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til umfjöllunar félmn. Ég trúi því að sú nefnd gangi rösklega til verks þannig að við megnum að ljúka umfjöllun málsins og taka það til afgreiðslu áður en þing er úti að vori.