Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:33:40 (5381)

2001-03-08 11:33:40# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla helst ekki að blanda mér í innansveitarkróníkur í Hafnarfirði. Ég lít svo á að þetta frv. þurfi ekki að hljóta samþykki þar sem við þessu hafi verið séð með öðrum hætti.

Í sveitarstjórnarlögum segir í 67. gr.: ,,Semja skal ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal semja samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald, sbr. 60. gr.

Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum, reglum og góðri reikningsskilavenju.

Ársreikningur skal sýna yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikning í lok reikningsárs ásamt skýringum. Í ársreikningi skal sýna fjárhagsáætlun reikningsársins til samanburðar og í honum skal koma fram yfirlit um fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélagsins.

Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga að höfðu samráði við Hagstofu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.``

Ég lít svo á að hér sé svo afdráttarlaust kveðið að orði að það sé ekki nein leið að fela neitt. Reikningurinn er ekki gerður eftir góðri reikningsskilanveju ef í honum er ekki yfirlit um rekstur og framkvæmdir á reikningsárinu og efnahagsreikningur við lok reikningsárs.

Síðan þetta frv. var fyrst flutt, ég held að það hafi verið lagt fram á síðasta þingi, hef ég sett reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga. Hún hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, reglugerð nr. 944/2000. Í 18. gr. þeirrar reglugerðar er gerð grein fyrir reikningsskila- og upplýsinganefnd. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Félmrh. skipar reikningsskila- og upplýsinganefnd. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum. Tveir fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Fjórir varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

Nefndin skal í störfum sínum stuðla að samræmingu í reikningsskilum sveitarfélaga og öðrum fjárhagslegum upplýsingum þeirra eftir því sem ráðuneytið ákveður.

Nefndin skal semja reglur um þau atriði reikningsskila sveitarfélaga, sem eru sérstök fyrir þau. Nefndin skal m.a. fjalla um flokkun á greiningu gjalda og tekna, eigna og skulda sveitarfélaga, sbr. 3. og 13. gr., form fjárhagsáætlana, sbr. 9. gr., ársreikninga, sbr. 14. og 15. gr., og annarra fjárhagslegra upplýsinga sveitarfélaga, sbr. 16. gr. Reglur nefndarinnar skulu birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum eftir staðfestingu ráðuneytisins.

Ráðuneytið skal sjá til þess að auglýsingar þess um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga séu aðgengilegar sveitarfélögunum með útgáfu handbókar eða með öðrum sambærilegum hætti í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga.``

Nefndin hefur verið skipuð. Garðar Jónsson, deildarstjóri í félmrn., er formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn eru Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur og Óskar G. Óskarsson sem mun vera aðalbókari Reykjavíkurborgar. Þessi nefnd hefur ekki enn gengið frá samræmdum reglum um bókhald sveitarfélaganna eins og henni er ætlað, framsögumaður tók það réttilega fram, en ég tel einboðið að hún muni einmitt fjalla um einkaframkvæmd sem er að færast í vöxt, ekki bara í Hafnarfirði heldur víðar. Ég tel að einkaframkvæmd geti átt rétt á sér og það verði að leggja í vald einstakra sveitarstjórna hvort þær fari út í einkaframkvæmd. Það skiptir hins vegar máli hvort sveitarfélagið eignast einhvern tíma mannvirkið eða ekki samkvæmt einkaframkvæmdinni.

Varðandi jöfnunarsjóðsframlag til Áslandsskóla sem er byggður í einkaframkvæmd, eins og hv. þm. gat um í framsögu sinni, þá tel ég að það hljóti að vera nokkuð vafasamt. Þetta er ekki framkvæmd sem sveitarfélagið á. Þar af leiðandi þykir mér fremur ósennilegt að það sé hlutverk jöfnunarsjóðs að leggja fram peninga til þess verkefnis. Til að auðvelda sveitarfélögum einsetningu grunnskólans voru lagðar fram 400 millj. á ári í fjögur ár. Ég efast um að Áslandsskóli geti fallið undir þá skilgreiningu þar sem Hafnarfjarðarbær, að því er mér hefur skilist, eignast ekki skólann. Nóg um það.

Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að fjárhagslegar skuldbindingar komi fram í reikningum sveitarfélags. Nú skal ég ekki um segja hvort þessi nefnd kemur til með að leggja til að bókhald sveitarfélaganna sé fært nákvæmlega eins og bókhald ríkisins, þ.e. hvort hún velur greiðslugrunn eða rekstrargrunn. Mér þykir samt eðlilegra, prívat og persónulega og án þess að ætla að segja nefndinni eitthvað fyrir verkum, að svipaðar reglur gildi um sveitarfélögin og um ríkið, reikningsskilavenjur séu álíka og hjá ríkinu.

Ég tel sem sagt að það þurfi ekki að afgreiða þetta frv. þar sem búið sé að setja undir þennan leka. Sveitarfélögin hljóta að verða að gera grein fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og greiðslum, annars væru þar ekki góðar reikningsskilavenjur.