Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 11:47:57 (5386)

2001-03-08 11:47:57# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[11:47]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Full ástæða er til að ræða þessi mál. Það sem hæstv. ráðherra sagði áðan um að munur væri á því hvort sveitarfélögin eignuðust hús eða mannvirki sem væru fjármögnuð með þessum hætti skiptir mjög miklu máli. Það skiptir nánast öllu máli þegar um er að ræða húsnæði sem er sett niður samkvæmt skipulagi eins og skólahúsnæði eða íþróttahús, annað slíkt húsnæði sem er sett niður til sérnota. Það er alveg ótrúlegt að sveitarfélög skuli hafa valið þann kostinn að einkafjármagna þetta og þegar einkafjármögnunartíminn er liðinn eigi viðkomandi aðilar húsið en ekki sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru þá í greip þessara aðila til þess að fá samning áfram um sama húsnæðið. Þetta er fáránleg della. Þetta mundu einstaklingar aldrei gera, þ.e. að setja sig í þessa klemmu nema þeir vissu að þeir hefðu önnur úrræði þegar upp væri staðið. Þetta er með miklum eindæmum.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að öðru. Er það svo að sveitarfélögin hafi ekki aðgang að fjármagni með sambærilegum eða betri lánakjörum en einkaaðilar á Íslandi sem eru að fjármagna slíka hluti? Hvernig stendur á því að sveitarfélögin leiðast út í að velja einkafjármögnun ef þau hafa aðgang að fjármunum með eðlilegum hætti sem væri þá samkeppnisfær við þetta? Er ástæðan fyrir því að sveitarfélög leiðast út í þetta að eitthvað vanti að gera til að þau hafi aðgang að lánsfé til þess að fjármagna slíkar byggingar?