Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:01:26 (5393)

2001-03-08 12:01:26# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar sveitarstjórnarlög voru síðast endurskoðuð voru tekin upp mörg ákvæði varðandi fjármál sveitarfélaga, eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og lagaákvæði styrkt hvað þau varðaði. Síðan þá hafa orðið hraðfara breytingar varðandi einkafjármögnun í skólum, barnaheimilum og fleiri slíkum byggingum. Þróunin er í samræmi við það sem almennt gerist núna, að fyrirtæki sérhæfa sig í að reisa húsnæði, reka og leigja, og sveitarfélögin hafa orðið viðskiptavinir slíkra fyrirtækja.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að amast við þessari þróun. Ég sé ekki ástæðu til þess. Ég vil að sveitarfélögin hafi frjálst val um hvort þau fari þessa leið eða aðra í fjármögnun sinni. Þau hafa aðgang að sterkum lánasjóði eins og fram kom hjá hæstv. félmrh. áðan. Hann stendur vel. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um kjör hans en hygg að þau séu með því besta á markaðnum. Hins vegar hafa ýmis sveitarfélög farið einkafjármögnunarleiðina. Það er ekki ástæða til þess að amast við því og þau eiga að hafa val í þessum efnum.

Ég vil undirstrika að það er nauðsyn að þessar skuldbindingar komi fram í reikningum sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að andi sveitarstjórnarlaganna þegar þau voru samþykkt síðast var sá að fjármál sveitarfélaga væru samanburðarhæf og allar þeirra skuldbindingar kæmu fram í reikningum þeirra. Málið snýst auðvitað um að leigugreiðslur, sem eru rekstrarkostnaður, og skuldbindingar í leigugreiðslum komi fram til lengri tíma. Það er engin ástæða til þess að ætla annað en að sú nefnd sem fjallar um þessi mál komi sér saman um skynsamlega reglu í þessum efnum. Vonandi er óþarft að Alþingi blandi sér í þessi mál með þeim hætti sem hér er en eigi að síður fær þetta frv. þinglega meðferð. Ég tel að meiningin í því sé góð, að skýra þessar reglur en ég er sammála hæstv. félmrh. um að farsælast sé að nefndin setji slíkar reglur. Ég hef ekki ástæðu til að óttast að hún komi sér ekki saman um þetta.