Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:29:41 (5402)

2001-03-08 12:29:41# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:29]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri ekki að elta ólar við þetta í 1. umr. málsins vegna þess að ég veit að hv. þm. fer fyrir þeirri nefnd sem um málið ætlar að fjalla en ég hef satt að segja dálitlar áhyggjur af þessari tóntegund sem er að finna þar.

Nú er komið nýtt hugtak, að það hafi verið vandamál áratugum og öldum saman væntanlega að færa skuldbindingar sveitarfélaga með þeim hætti sem gert hefur verið, að skóli sem er byggður og er í eigu sveitarfélags, það komi hvergi fram hver kostnaðurinn er við rekstur hans. Auðvitað kemur það fram í viðhaldi hans, það kemur fram í mannahaldi við rekstur skólans. Er hv. þm. að leggja til að þessari viðteknu venju verði breytt? Auðvitað ekki. Það sem við erum að gera er að við erum að færa þessa nýju leið til samræmis við það sem gerst hefur hér árum saman og enginn hefur deilt um. Það er kjarni málsins. Um það snýst frv. þannig að við skulum ekki vera að gera nógu flókin mál enn þá flóknari. Þetta ber dálítinn keim af þeirri umræðu einmitt sem átt hefur sér stað um þessi mál nákvæmlega. Það er einmitt af þeirri ástæðu að ég taldi þann kost einan gerlegan til að taka af öll tvímæli að fara með þetta inn á hið háa Alþingi til að hnykkja á því að gildandi lög þýddu þetta líka. Með þeirri umræðu sem hér á sér stað í sölum Alþingis, það er ekki bara laganna hljóðan, það eru líka nefndarálit og annað því um líkt og ef við göngum frá málinu með þeim hætti sem hér er lagt til þá velkist enginn í vafa um það lengur. Þá hlaupa menn ekkert undan merkjum eins og reynslan er í fjölmörgum tilfellum og það veit hv. þm.