Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:37:28 (5406)

2001-03-08 12:37:28# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:37]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu sem var einnig flutt á síðasta þingi en að henni standa ásamt mér nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Efni tillögunnar er að fela fjmrh. að láta fara fram heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja og að virt séu ákvæði jafnréttislaga í því efni.

Heildarendurskoðun skal liggja fyrir á haustmánuðum 2001 og skal ráðherra gefa Alþingi skýrslu um niðurstöðu hennar.

Tilefni þess að ég flutti tillögu um að þessi úttekt og skoðun fari fram er í fyrsta lagi svar viðskrh. fyrir þremur árum við fyrirspurn minni um bifreiðastyrki innan bankakerfisins en þar kom fram að það hallaði mjög á í yfirmannastöðum innan bankakerfisins. Af svarinu mátti líka draga þá ályktun að kerfi fastra bifreiðastyrkja væri notað til þess að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum. Það var sérstaklega innan Landsbankans og Búnaðarbankans og bæði þingflokkur Jafnaðarmanna þá og Samband íslenskra bankamanna fóru þess á leit við Jafnréttisráð í kjölfar niðurstöðunnar að kannað yrði hvort um væri að ræða brot á jafnréttislögum. Í stuttu máli var niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að um afgerandi mun væri að ræða á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan Landsbankans og Búnaðarbankans sem bryti í bága við jafnréttislög. En ég veit ekki til þess, herra forseti, að þessu hafi nokkuð verið fylgt eftir innan bankanna eða að farin hafi verið einhver sú leið til þess að jafna þann mun sem kærunefnd jafnréttismála komst að að væri á bifreiðastyrkjum eða þessum hlunnindagreiðslum milli kvenna og karla og er það mjög slæmt.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh., sem ég þakka fyrir að vera viðstaddur umræðuna, hvaða úrræði við höfum raunverulega til að framfylgja því þegar upp koma slík brot á jafnréttislögum, hvort ekki sé ástæða til að breyta jafnréttislögum í þá veru að hægt sé að fylgja málum allt til enda og sjá til þess að aðilar innan hins opinbera framfylgi jafnréttislögum og ekki síst þegar þeir verða uppvísir að brotum sem eru staðfest af kærunefnd jafnréttismála, að því sé þá fylgt allt til enda að þar verði úr bætt. En þar finnst mér verulega á skorta. Þarna lá fyrir brot á jafnréttislögum sem eru staðfest af kærunefndinni, en síðan ekki söguna meir. Niðurstaða kærunefndar var að vísu send af hæstv. viðskrh. til bankanna en þeir báru því við, ef ég best man báðir, að ekki væri um neitt brot að ræða og mótmæltu því að um nokkur brot á jafnréttislögum væri að ræða að því er varðaði þessar hlunnindagreiðslur innan bankanna. Það vita flestir sem hafa skoðað þessi mál gegnum tíðina að einmitt ýmsar hlunnindagreiðslur hafa verið notaðar til að hygla frekar körlum en konum og þær eru kannski stærsti liðurinn í því að ekki ríkir jafnræði milli karla og kvenna á vinnumarkaðnum þegar laun eru annars vegar.

Það fer vel á því, herra forseti, að við séum einmitt að ræða þessi mál á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, og þó Ísland sé í fararbroddi að því er varðar mannréttindi og jafnréttismál á mörgum sviðum og fremst meðal þjóða sem standa sig best í því efni þá er eins og okkur takist ekki, hvernig sem við reynum, hvað ítarlega sem farið er út í kannanir og athuganir á þessum málum, hvað ítarlega sem eru sett ákvæði í jafnréttislög, að uppræta launamismuninn á vinnumarkaðnum.

Síðari ástæða þess að við fórum út í þennan tillöguflutning er að í úttekt, sem ég bað um að fjmrn. gerði á bifreiðastyrkjum innan ríkisstofnana, kom einnig fram verulegur og afgerandi munur á bifreiðastyrkjum til karla og kvenna sem ég gat ekki fundið neina viðhlítandi skýringu á. Í greinargerð með þessari tillögu er dregið fram hve þar munar miklu, en meðalbifreiðastyrkur til karla var rúmlega 135 þús. kr. á árinu 1996 sem tölurnar tóku til en meðalbifreiðastyrkur til kvenna var rúmlega 30 þús. Þar munar verulega á og enginn eðlileg skýring sem fram kom sem réttlætir slíkan mun.

Maður verður að halda því til haga, herra forseti, og ég vænti þess að hæstv. félmrh. sé mér sammála í því, að stjórnvöld hafa ákveðnum skyldum að gegna og hafa þeim skyldum að gegna að ganga á undan með góðu fordæmi fyrir aðra. Nógu erfitt er að ná þessu í höfn þó að opinberir aðilar, að ekki sé talað um ráðuneyti, séu uppvísir að því að hygla frekar körlum en konum í slíkum hlunnindagreiðslum.

Auðvitað má margt meira um þetta segja, herra forseti. Ítarlegar kannanir hafa komið fram bæði nýlegar af hálfu kjararannsóknarnefndar og af hálfu Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem allar staðfesta það að mikill munur er á launum karla og kvenna í sambærilegum stöðum. Hér er ég með könnun frá kjararannsóknarnefnd, að vísu frá 1999, en þar kemur fram að karlar hafa að meðaltali 32% hærri laun en konur. Fyrir liggur að kynbundinn launamunur sem ekki er hægt að skýra, sem bæði hefur verið gerð könnun á að mig minnir af nefnd á vegum félmrh. sé 18% og sá munur var einmitt staðfestur og var sá sami í könnun sem VR lét gera, að kynbundinn launamunur sem ekki var hægt að skýra var um 18%.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess þó að efni væri til að fara ítarlega í þessa þáltill., hún hefur verið flutt áður á þingi. Efni hennar er þingmönnum kunnugt og rökin á baki henni eru skýr. Jákvæðar umsagnir komu fram á síðasta þingi um að fara í slíka úttekt, m.a. frá ráðuneytum, ég man ekki hvort það kom frá félmrn. Ég þakka því fyrir að félmrh. skuli vera viðstaddur þessa umræðu þannig að við fáum þá skoðun hans á málinu.

Ég legg til að lokinni umræðunni verði málinu vísað til --- nú er mér nokkur vandi á höndum --- sennilega er það allshn. fremur en félmn. en hún færi þá í sömu nefnd og henni var vísað til á síðasta þingi sem ég bið þá að forsetaembættið athugi.