Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:48:41 (5408)

2001-03-08 12:48:41# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:48]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem kom fram hjá honum. Ég deili auðvitað þeim sjónarmiðum með honum að það virðist vera erfitt að uppræta launamismuninn og því tel ég að það réttlæti út af fyrir sig að grípa til sértækra aðgerða, vegna þess að það er viðurkennt að það er launamunur, kynbundinn launamunur í þjóðfélaginu. Og ég vil spyrja ráðherrann að því hvort hann telji koma til greina að grípa til ákvæða sem er að finna í 3. gr. jafnréttislaga, sem kveða á um að sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til þess að bæta stöðu kvenna og koma á jafnrétti og jafnri stöðu, að það teljist ekki ganga gegn jafnréttislögum. Þetta er þessi svokallaða jákvæða mismunun. Og telur hann eðlilegt og rétt við slíkar aðstæður, þegar ekki virðist hægt að ná landi í þessu máli og ná réttlæti í málinu, þ.e. að uppræta launamuninn sem er mjög verulegur, að grípa til slíkra sértækra aðgerða? Ég man þegar ég var í félmrn. þá hugleiddi ég það nokkuð og það eru nokkrar hugmyndir á borði í því efni sem mætti vel skoða og dusta rykið af. Og ég spyr ráðherrann hæstv. hvort hann telji ástæðu til þess þegar tímanum vindur svona fram án þess við náum nokkuð lengra í þessu efni.

Þá vil ég einnig spyrja um kærunefnd jafnréttismála. Telur hæstv. ráðherra ekki að það þurfi að veita henni meira vald, úrskurðarvald, til þess að úrskurðir hennar séu bindandi og beri að framfylgja, þegar t.d. fyrir liggur að bankarnir hafi ekki framfylgt úrskurði kærunefndar, jafnvel þó að fyrir liggi að þeir hafi brotið lög?