Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:53:36 (5411)

2001-03-08 12:53:36# 126. lþ. 85.5 fundur 158. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég ekki tímabært að beita 3. gr. Við búum við ný jafnréttislög, nýtt skipulag eða nokkuð breytt skipulag jafnréttismála. Við höfum sett upp Jafnréttisstofu sem starfar af miklum þrótti undir prýðilegri forustu Valgerðar H. Bjarnadóttur og ný kærunefnd jafnréttismála er tekin til starfa. Ég held að við eigum að bíða og sjá hver árangur verður af því starfi og ég hef góða von um að við séum á réttri leið.