Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:51:18 (5431)

2001-03-08 14:51:18# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sem vorum kosnir til þings núna og vorum ekki á þingi á síðasta kjörtímabili áttum engan kost á því að hafa áhrif á það hvers konar fyrirkomulag yrði samþykkt hér. Einungis var hægt að segja já eða nei og ég tel að það hafi verið, úr því sem komið var, rétt að taka skrefið vegna þess að þessi tillaga var tilbúin og full ástæða er til að halda það að ef menn hefðu ekki tekið það skref sem þá var gert hefði kannski orðið langt í það að menn gerðu breytingu. Krafan um að komið yrði til móts við þessi stóru sjónarmið um jöfnun atkvæðisréttarins var það rík frá hendi þeirra sem hafa búið við það að atkvæði þeirra væru minna metin að ekkert var undan henni vikist. Það er aðalástæðan fyrir því að menn hröktust fram af þeim hamri sem hér var.

Ég held að menn verði að reyna að gera gott úr þessu öllu saman með því að setjast yfir þetta mál og reyna að finna niðurstöðu sem er skynsamlegri en sú sem nú ríkir og það sem allra fyrst.