Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:03:54 (5435)

2001-03-08 15:03:54# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú þáltill. sem við ræðum hér er um kosningar og kjördæmaskipan og breytingar þar að lútandi og var reyndar boðað af okkur þingmönnum Frjálslynda flokksins að slík tillaga mundi koma fram fyrr en seinna. Ég ætla ekki að fara að rekja mikið efni tillögunnar. Það hefur hv. 1. flm., Sverrir Hermannsson, gert mjög skilmerkilega. Ég ætla hins vegar aðeins að koma inn á þá umræðu sem hér hefur farið fram og ætli ég byrji þá bara ekki á hv. síðasta ræðumanni.

Mikið vildi ég að það væri svo að við gætum verið viss um að þegar sett hafa verið arfavitlaus lög þá mundu menn breyta þeim mjög fljótlega. (Gripið fram í: Það á ekki við um fiskveiðistjórnina.) Nei, það á nefnilega ekki við um fiskveiðistjórnina. Við erum búin að búa við það bölvað system án þess að menn hafi þorað að taka á þeim vandamálum sem þar hafa verið og það er kannski ekki minnsti þátturinn í því að víkja að þeim vanda margra byggðarlaga og landsbyggðarinnar að stóru leyti sem menn hafa iðulega komið inn á hér í byggðaumræðu og ýmsu fleiru sem lýtur að almennum búseturétti fólks, almennum atvinnuháttum og almennum rétti fólks til þess að halda atvinnu sinni og búa í þeim byggðarlögum sem Ísland hefur byggst upp á á undanförnum árum, áratugum og öldum.

Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni að það sem búið er að gera við þessa síðustu kjördæmaskipan hljóti að leiða til þess fyrr en seinna, vonandi, að ýta undir það að þessi mál verði endurskoðuð. Ég sé ekki annað en það hljóti að liggja í farvatninu að landið verði gert að einu kjördæmi. Það eru engin önnur rök sem hníga til þess úr því sem komið er en að svo verði gert og því held ég að sú tillaga sem hér var mælt fyrir og hér er til umræðu sé mjög þörf. Það er nauðsynlegt að taka þessi mál til umfjöllunar fyrr en seinna þó að ekki sé lengra liðið en raun ber vitni frá því að kjördæmaskipanin var samþykkt hér á Alþingi.

Það er auðvitað mjög umhendis að sinna kjördæmunum í þeirri stærð sem þau eru orðin og þó að samgöngur hafi virkilega batnað á landinu og séu alltaf að batna, þá er það samt þannig að þetta er geysileg yfirferð ef menn ætla að reyna að sinna þessu sæmilega. Svona til gamans get ég nefnt að ég lenti í því í fyrrasumar að þurfa einn dag að sitja fund á Hólum í Hjaltadal, sem er nokkurn veginn austast í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, og hins vegar að mæta daginn eftir vestur á Örlygshöfn sem er nokkurn veginn vestast í hinu nýja kjördæmi. Fundurinn á Hólum í Hjaltadal stóð langt fram undir miðnætti en athöfnin í Örlygshöfn, vestur á Hnjóti átti að hefjast um og upp úr hádegi daginn eftir, svo það var náttúrlega ekkert annað að gera en rúlla sér þessa 480--490 km um nóttina. En svona er þetta. Ef maður hefur lofað því að mæta á einhverjum ákveðnum stað snemma vors og síðan er haldinn einhver ákveðinn fundur daginn áður sem maður vill ekki missa af þá er þetta svona. Það er orðið lengra í kjördæminu í austur/vestur heldur en það var þó að fara héðan frá Reykjavík í nyrstu byggðina áður en kjördæmabreytingin varð. Ég hygg að vegalengd hv. þm. Kristjáns Möllers frá Siglufirði suður undir Hornafjörð sé jafnvel enn lengri alla vega meðan hann er ekki búinn að fá þau göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem fyrirhuguð eru. (Gripið fram í: Þau koma.) Ég tel því að kjördæmabreytingin hafi ekki verið beinlínis til góðs og úr því að menn voru á annað borð að breyta kjördæmaskipaninni held ég að menn hefðu átt að fara alla leið og breyta landinu í eitt kjördæmi.