Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:09:09 (5436)

2001-03-08 15:09:09# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist yfir þessari umræðu. Hún er algerlega með ólíkindum satt að segja. Að hér skuli hver hv. þm. á fætur öðrum koma upp og tala í þá veru að sú breyting sem gerð var á kjördæmaskipaninni sl. vor, fyrir tæpu ári síðan, sé óskapnaður, ómöguleg með öllu og gefa þar jafnframt til kynna að skipan mála fyrir þann tíma hafi verið svo góð að þar hafi engu mátt breyta.

Ég segi bara enn og aftur: Ég kalla eftir hugmyndum og tillögum þessara ágætu hv. þm. um betrumbætur á því fyrirkomulagi sem var. Hvernig var það, herra forseti? Hér var eitt atkvæði í Reykjavík og á suðvesturhorninu jafngildi fjögurra í fámennustu kjördæmunum. Það var engin sátt um það neins staðar, hvergi. Það voru allir sammála um það í þessum sal, og ég hygg alls staðar í þjóðfélaginu, að á þessu þyrfti að taka. En það var auðvitað vandaverkið að gera það svo að vit væri í. Ég segi eins og er, herra forseti, að menn gleyma því að árangurinn af þessari kjördæmabreytingu er sá að það er stjórnarskrárbundið að þetta misvægi atkvæða megi aldrei verða meira en 1:2 og það eitt út af fyrir sig er umtalsverður árangur. Ég bið því hv. þingmenn um að fara varlega í að úthrópa þetta kerfi.

Ég velti líka vöngum yfir því að á sama tíma og hv. þm. kvarta yfir stórum og víðfeðmum kjördæmum, þá er verið að biðja um að landið verði allt eitt kjördæmi. Hvaða samhengi er í umræðu af þessum toga? Það er auðvitað ekki neitt. Skoðun mín er einfaldlega sú, og ég barðist fyrir því í þeirri kjördæmanefnd sem ég sat í, að við stækkuðum kjördæmin og fækkuðum þeim og að við fjölguðum jafnframt þeim þingmönnum sem sitja í þessum sömu kjördæmum. Menn tala hér eins og ekkert hafi gerst í þeim efnum. Við erum að tala um það að í Suðausturkjördæmi verði 10 þingmenn, í Norðausturkjördæmi verði 10 þingmenn, í Suðurlandskjördæmi verði 10 þingmenn. (SvH: Nei.) Jú, það er bara þannig. Og menn tala um að því sé ekki að heilsa að þarna verði verkaskipting á milli. Auðvitað verður það þannig þegar landið verður allt eitt kjördæmi að þá munu stjórnmálaflokkarnir, hvort sem þeir eru með 10, 20 eða 30 menn á þingi, væntanlega skipta eitthvað með sér verkum þannig að einhverjir þingmenn í þeirra hópi munu sjá meira um einn landshluta en annan. Þó vil ég taka það skýrt fram, herra forseti, að ég hef aldrei litið þetta jafnþröngum augum og mér virðast margir gera hér. Ég hef gjarnan litið þannig á að ég sé þrátt fyrir allt þingmaður þjóðarinnar og hefði gjarnan viljað sinna landsbyggðinni jafnt sem því kjördæmi sem ég er kjörinn frá. Herra forseti. Ræðum nú þetta mál eilítið í samhengi.

Ég segi enn og aftur og það er þess vegna sem ég get ekki orða bundist hér að þingmenn sem tala um þetta sem einhvern óskapnað þegar við höfum náð verulegum árangri í jöfnun atkvæða, höfum náð verulegum árangri í þá veru, og gætum að því að allir stóru stjórnmálaflokkarnir eða þeir hefðbundnu sem hér sitja á Alþingi, að vísu að Frjálslynda flokknum undanskildum, eiga samkvæmt kosningaúrslitum langt aftur í tímann raunhæfan og verulegan möguleika á því að fá fulltrúa í hverju einasta kjördæmi. Hér á árum áður var það nú þannig að sumir flokkar voru þingmannslausir yfir hálft og heilt landið. Og það var líka verið að gaumgæfa það að það væri víð og góð ,,representasjón`` vítt og breitt um landið í öllum kjördæmum. Menn mega því ekki tala hér út í bláinn heldur verður að skoða málið eins og það er lagt fyrir.

Þetta er auðvitað ekki gallalaust. Vafalaust á eftir að lagfæra þetta og þessu má breyta. Ég dreg ekkert undan með það, gerði það ekki á þeim tíma og geri það ekki nú, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að gera landið allt að einu kjördæmi, og að því leytinu til tek ég undir þá till. til þál. sem hér er til umræðu og er margt ágætt um hana að segja. En að nálgast það viðfangsefni með þeim hætti sem hér hefur verið gert, að hér komi hv. þm. hver um annan þveran og sjái bara hinn svarta í hverju einasta horni þegar þessi kjördæmaskipun er rædd, það er svo fjarri lagi og nær engri átt. Ég ætla ekki að segja meira um þetta, herra forseti. Ég gat bara ekki orða bundist.

Að lyktum þetta. Það hefur líka verið í tísku, af því að mér hefur einkum dvalist utan höfuðborgarsvæðisins, að Reykjavíkurþingmenn hafa hver um annan þveran, af því að þeim hefur fundist það passa, stundum gagnrýnt það að skipta Reykjavík í tvennt. Hvað er að því? Það er nákvæmlega ekkert að því. Það er kvartað yfir því að hér séu 18 eða 20 þingmenn, þeir verða 22 eftir kjördæmabreytinguna, fjölgar um fjóra, og þeir hafi náttúrlega sökum stærðar borgarinnar átt erfitt með að tengjast kjósendum sínum, íbúafjölda upp á 110 þúsund manns. Og þetta var m.a. tilraun til að smækka það kjördæmi til að kjörnir fulltrúar hefðu meiri nálgun við kjósendur sína, þá aðila sem krossuðu við þá. Það var líka verið að huga að þessu.

Skoðum þetta mál í einhverju samhengi, herra forseti, en förum ekki um víðan völl í svona bjálfagangi.