Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:16:41 (5438)

2001-03-08 15:16:41# 126. lþ. 85.11 fundur 217. mál: #A kosningar til Alþingis# (kjördæmaskipan o.fl.) þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta snýst alltaf að lyktum um þetta: Eiga menn að una því versta og halda sig við það af því að þeir fá ekki hið albesta? Ég kaus þá leiðina að velja það skásta sem í spilunum var. Gleymum því ekki, og það veit hv. þm. Sverrir Hermannsson eins og ég, að menn hafa verið að berjast við það allt frá 1959 að lagfæra þá skipan sem á var komið á þeim tíma.

Ég vil líka spyrja af því að hann man það væntanlega mjög vel: Hvert var helsta álitaefnið og ágreiningsefnið í þeirri kjördæmabreytingu? Jú, kjördæmin yrðu svo stór, þau yrðu svo víðfeðm, það yrði svo erfitt fyrir þingmenn að sinna þeim. Hefur maður heyrt þetta síðar? Já, maður hefur auðvitað heyrt þetta síðar.

Herra forseti. Það er að sönnu rétt ef hv. þm. leggur saman Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra að þá fækkar þingmönnum. En hvernig hefur þetta fyrirkomulag verið af því að hv. þm. þekkir mætavel til í hinni gömlu kjördæmaskipan. Fimm þingmenn Vestfjarða voru ekki í miklu samráði við þá þingmenn sem voru á Vesturlandi, hvað þá heldur þingmenn á Norðurl. v. Nei, þar var hver fyrir sig. En í þessu tilfelli eru menn að reyna að komast út úr þessum þröngu sérhagsmunum kjördæmanna og víkka þessa sýn og taka þá höndum saman um Landsbyggðina, með stórum staf, eins og hér hefur verið talsvert talað um, þannig að hér er ólíku saman að jafna. Þess vegna undirstrika ég það að það eru stærri þingmannahópar fyrir þessi stærri kjördæmi undir þeim formerkjum sem ég lýsti áðan.

En meginatriðið er það, herra forseti, að okkur miðar í rétta átt. Ég skal engu um það spá hvað við lifum lengi við þessa kjördæmaskipan. Við lifðum við hina gömlu frá 1959 í ein 40 ár. Það datt engum í hug þegar á var sett, en menn reyndu strax á fyrsta áratug, þ.e. sjötta áratugnum, að setjast við að lagfæra þá kjördæmaskipan. Það tók 30 ár.