Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 15:40:08 (5444)

2001-03-08 15:40:08# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin til umræðu. Í aðdraganda síðustu kosninga var þessi stefnumörkun rædd á vegum Samfylkingarinnar og við töluðum fyrir slíku máli í kosningabaráttunni eins og hér hefur verið flutt. Hérna erum við að tala um öryggisnet. Við erum að tala um öryggisnet fyrir þá sem ekki hafa nægilega góðan lífeyri til að framfleyta sér. Þetta öryggisnet er að vísu ætlað fyrir aldraða og öryrkja en ég vil taka það fram strax í upphafi ræðu minnar að ég tel að þegar menn hafa komið á slíku öryggisneti fyrir aldraða og öryrkja, muni í framhaldi af því verða skoðað nákvæmlega hvernig sambærilegt öryggisnet eigi að vera fyrir alla sem lenda í því að verða tekjulausir af einhverjum ástæðum.

Það er ýmislegt í velferðarkerfi okkar sem ekki virkar eins og skyldi og þess vegna eru vandamál uppi. Það hafa ekki allir lífeyrissjóði til að grípa til af ýmsum ástæðum, ástæðum sem menn hafa kannski ekki getað ráðið við. Það getur verið atvinnuleysi, það geta verið veikindi, það getur verið ýmislegt sem kemur til. En menn mega ekki gleyma einu. Samfélagið ber alltaf ábyrgð á afkomu fólks. Það er alveg sama hvers vegna menn eru í þrotum á gamalsaldri. Við hljótum alltaf að bera ábyrgð á því að fólk hafi eitthvað sér til framfæris einfaldlega vegna þess að í siðuðu samfélagi teljum við það vera grunnskyldu okkar að sjá fólki fyrir framfæri. Þetta er ekki bara skylda, þetta er líka réttur fólks, en það er því miður enn þá þannig að margt fólk í þjóðfélaginu á erfitt með að taka við hjálp samfélagsins vegna þess að það hefur ekki tileinkað sér þann hugsunarhátt sem þarf að vera, þ.e. að fólk á að líta á þessa hluti sem sinn rétt. Gamli hugsunarhátturinn að menn mættu ekki þiggja af sveit eins og var áður fyrr er auðvitað aftan úr forneskju og á ekki heima í nútímasamfélagi. Það er ekki verið að rétta að fólki fjármuni frá hinu opinbera nema nauðsyn beri til og reglurnar miðast við það. Það sem hér er verið að tala um er í raun og veru öryggisnet sem á að koma til þegar fólk hefur ekki nægar tekjur með almennum hætti, annaðhvort af lífeyri eða með öðrum ráðum.

En hvert hefur mat samfélagsins verið á slíkri afkomutryggingu eins og við erum að tala um núna? Vissulega er hægt að halda því fram að þjóðfélagið hafi boðið þegnunum upp á vissa afkomutryggingu en hvert hefur þá matið verið? Það er nefnilega nýlega búið að dæma í slíku máli. Eftir dóm Hæstaréttar í öryrkjamálinu settist þar til skipaður hópur lögfræðinga ríkisstjórnarinnar yfir það hver afkomutrygging öryrkja ætti að vera og nú er búið að útfæra þetta yfir á aldraða. Hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að lágmarkið sem menn hefðu sér til framfæris ætti að vera 43 þús. kr. og það stendur. Það er sú tala sem núverandi stjórnvöld telja að eigi að vera lágmarksframfærsla fyrir einstaklinga. Þess vegna er full ástæða til að spyrja og fá kannski á því nánari útskýringar hver afstaða hæstv. ráðherra er þá til framfærsluréttar einstaklinga í þjóðfélaginu eins og hér er lagt til. Hér er verið að tala um einstaklinga og lágmarkslífeyri fyrir þá.

[15:45]

Auðvitað er ömurlegt til þess að vita að síðasta afrek hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli hafi komið til vegna þess að hún hraktist undan dómum og undan dómi Hæstaréttar. Hún tók dóminum eins og við þekkjum. Þann dóm var reynt að túlka eins þröngt og menn höfðu hugmyndaflug til. Hugmyndaflugið náði býsna langt og það endaði með því að menn héldu áfram að skerða lífeyri sem þó hafði í dómsorði verið mælt fyrir um að ekki mætti skerða. Ég ætla hins vegar ekki að fara í þá umræðu núna.

Ég ætla að bæta við fáeinum orðum um að ég tel almenna þörf á þeim ráðum sem við gefum í þessari tillögu. Ég held að hægt sé að einfalda velferðarkerfi okkar í framhaldi af því að menn taki upp slíka afkomutryggingu. Þá þarf ekki eins margvísleg úrræði og menn hafa undanfarið reynt að grípa til. Við teljum að ekki verði þörf á ýmsum þeim úrræðum sem nú eru til staðar ef afkomutrygging verður tekin upp með þessum hætti. Allir hefðu þá þetta öryggisnet. Ég held að það sé full ástæða til að reyna að einfalda velferðarkerfið. Einstaklingarnir þekkja það ekki nægilega vel og við, hér á hv. Alþingi, erum meira að segja ekki nógu meðvituð um hvernig hin einstöku réttindi virka þegar mörg koma saman.

Ég held meira að segja að það hafi að mörgu leyti verið nauðsynlegur skóli sem hv. alþm. fóru í gegnum í vetur þegar við höfðum til umræðu málefni öryrkja eftir dóm Hæstaréttar. Ég verð að meðganga það sjálfur að ég lærði ýmislegt í þeirri umræðu sem ég vissi ekki áður. Mér kom ýmilegt mjög á óvart, m.a. varð ég enn betur meðvitaður um að fólk í þessu ríka þjóðfélagi á Íslandi getur búið við ákaflega bág kjör og haft ákaflega lítið sér til framfæris. Þó er þjóðin, samkvæmt upplýsingum þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn og ráðherra hér, dag eftir dag, sú fimmta ríkasta í veröldinni. Ég vil meina að menn sem telja sig í þeim hópi eigi að hafa mikinn metnað til að sjá til að hér séu engir fátækir og allir hafi nóg sér til viðurværis.