Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:16:27 (5449)

2001-03-08 16:16:27# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum tók ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. þá ákvörðun að létta álögum af atvinnulífinu og einstaklingum, einfalda skattkerfið, til að hvetja atvinnulífið. Þá var allt í dauða og dróma: 6% atvinnuleysi og mjög mikið þunglyndi í þjóðfélaginu. Þetta hefur tekist. Með því að lækka skatta hefur atvinnulífið tekist á flug, laun hafa hækkað sem hvergi annars staðar og tekjur ríkissjóðs hafa stóraukist. Ég minni t.d. á tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskattinum, sem er nú ekki nema 10%, hafa margfaldast. Til þess að borga (Gripið fram í.) einmitt, inn í velferðarkerfið. Hæfilega lágir skattar geta valdið því að tekjur ríkissjóðs aukist. En of mikil skattheimta og sérstaklega öfundarskattar, þar sem menn eru að ná í einhverjar ,,háar tekjur``, valda því oft að fólk nennir ekki að vinna. Þannig getur of mikil skattheimta drepið niður atvinnulífið, drepið niður vilja og frumkvæði einstaklinga til að vinna og við höfum minni peninga handa öryrkjum og öldruðum og til þeirra sem á þurfa að halda. Þetta er vandinn.

Talandi um Þjóðmenningarhús. Ég ber ekki beina ábyrgð á því frekar en aðrir þingmenn og ég er mjög mikið á móti því. En ég hef líka minnt á dagpeninga, herra forseti, sem hv. þm. þiggur og eru allt of háir. Ég veit ekki til þess að hún hafi skilað þeim.