Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:20:59 (5452)

2001-03-08 16:20:59# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Kristján L. Möller:

Sú till. til þál. sem hér er rædd um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja er að mínu mati eitt merkilegasta þingmál sem hefur komið fram síðustu missirin og ég er ákaflega stoltur af því að vera einn af flm. hennar ásamt öllum öðrum hv. þm. Samfylkingarinnar.

Það að árið 2001 skuli þurfa að flytja slíka þáltill. segir náttúrlega miklu meira en mörg orð um hvernig ástandið hefur verið og er í þessu þjóðfélagi. Hér er, herra forseti, lagt til að athugað verði með afkomutryggingu til þess að enginn þurfi að una fátækt eða óvissu um kjör sín og þá á þetta sérstaklega við um unga öryrkja og aldraða, einstæða foreldra, atvinnulausa og þá sem búa við langvarandi sjúkdóm. Þetta getur líka átt við ýmsa fleiri ef menn fara aðeins út á vinnumarkaðinn eins og hér hefur lítils háttar verið rætt um.

Það er nú svo að vegna ýmissa breytinga sem hafa verið gerðar hér á hinu háa Alþingi, og þá sérstaklega breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi og fiskvinnslu og landbúnaði, eru mjög margir, bæði ungir og aldraðir, langt fyrir neðan þau mörk sem þarf til að draga fram eðlilegt líf í þessu landi. Á þetta kannski sérstaklega við fólk á landsbyggðinni, þar sem atvinna hefur dregist meira saman og fólk hefur ekki getað leitað í aðra vinnu, hvorki hjá almennum atvinnurekendum, ég tala ekki um hjá ríkisvaldi eins og mikið gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta gæti því fyrr en seinna átt einnig við um ýmsa hópa í þjóðfélaginu sem eru að vinna fyrir 60.000--80.000 kr. á mánuði og er ótrúlegt hvernig hægt er að draga fram lífið á þeim launum. Enda segir svo í greinargerð með þessari ágætu þáltill. að í næsta áfanga muni þingflokkur Samfylkingarinnar ,,beita sér fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ríkisvaldsins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um afkomutryggingu þeirra sem af félags-, heilsufars- eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum hafa ekki sér til framfærslu það sem samsvarar lágmarkslaunum í þjóðfélaginu hverju sinni. Í því sambandi þarf m.a. að huga að afnámi skattlagningar á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og skattlagningar húsaleigubóta og tryggja að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé á hverjum tíma með þeim hætti að enginn þurfi að una því að eiga ekki fyrir nauðþurftum.``

Svo segir m.a. í greinargerð með þáltill. að í raun og veru megi segja að þjóðfélag geti ekki talist velferðarþjóðfélag nema vel sé búið að öldruðum og öryrkjum og þeim sem lægstu laun hafa í þessu efni.

Margt má um kjör þessa fólks segja og að grípa þurfi til þessara aðgerða, að finna nokkurs konar afkomutryggingu, er náttúrlega af illri nauðsyn. Við getum tekið sem dæmi hvernig hlutur aldraðra og öryrkja er skertur í einu vetfangi með einni reglugerð sem hæstv. heilbrrh. gefur oft út, t.d. varðandi lyfjakostnað svo við tökum dæmi, og tökum reglugerðarbreytingu sem gerð var um mitt síðasta ár sem fjallaði um það að þeir sem þurfa á lyfjum að halda greiði meira. Seilst var ofan í vasa þeirra sem á þessu þurfa að halda. Í þeim hópi voru elli- og örorkulífeyrisþegar. Þeir fengu hækkanir sínar líka. Með öðrum orðum fann hæstv. ríkisstjórn í þeim hópi breiðu bökin enn einu sinni til þess að auka á skatta eða auka á kostnað. Það var nefnilega svo með þeirri reglugerð sem gefin var út á síðasta ári, og sem væri auðvitað full ástæða til að taka inn í svona afkomukönnun, að verð hækkaði á hverri lyfjaávísun um 150 kr., eða um 37,5%. Greiðsluhlutdeild þeirra af smásöluverði hækkaði úr 30% af verði umfram 400 kr. í 50%. Hámarksgreiðsla hækkaði í 950 kr. úr 800 kr. Það er hækkun um 150 kr. sem er kannski ekki há tala, en engu að síður 19%.

Ef við tökum dæmi um elli- og örorkulífeyrisþega, sem notar t.d. maga- og geðlyf, verður þessi hækkun um 7.200 kr. á ári. Rétt er að hafa í huga að þessi hækkun um 7.200 kr. á ári er hærri tala en hækkunin sem var 1. apríl 2000 og við höfum stundum talað um sem aprílgabb ársins 2000, gamla fólkið var að fá launaseðilinn sinn upp á þessar litlu hækkanir sem þar voru, hélt að væri verið að senda þeim einhverja aprílgabbsseðla. Það var hækkun á ári upp 6.672 kr., það var nú allt og sumt.

Á þessum tíma, skömmu áður en þessi reglugerð var gefin út, var sem sagt verið að hækka eða skammta þessum þjóðfélagshópum 157 kr. hækkun á mánuði í grunnlífeyri, eða 1.884 kr. á ári, og 270 kr. á mánuði fyrir fulla tekjutryggingu, eða 3.240 kr. á ári. Það var ekki allt búið, heldur var svo 129 kr. hækkunin á mánuði í óskerta heimilisuppbót, eða 1.548 kr. á ári. Þetta gerði, herra forseti, samtals bótahækkun á ári til þessara þjóðfélagshópa upp á 6.672 kr. á ári. Er það nema furða þó að hér þurfi að flytja þáltill. um það að reyna að skapa þjóðarsátt, sem væri náttúrlega allra best, um afkomutryggingu aldraðra og öryrkja sem er ákaflega brýnt.

Það væri með öðrum orðum, herra forseti, ákaflega æskilegt að um það myndaðist þverpólitísk samstaða meðal stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi að ganga til þessarar vinnu þannig að menn hætti að takast á um það hvernig þetta skuli vera um aldur og ævi, en reyni frekar að komast niður á það hvaða grunn við eigum að hafa og taka þá tillit til ýmissa annarra atriða.

Ég verð alltaf ákaflega hissa, herra forseti, þegar hv. þm. Pétur Blöndal kemur og ræðir þessi mál hér fyrir hönd Sjálfstfl. vegna þess að aðrir þingmenn gera það ekki. Við tókumst á um þau mál í öryrkjaumræðunni um ýmislegt sem þar kemur fram. Það er líka ákaflega athyglisvert, herra forseti, að fyrir utan hæstv. heilbrrh., sem heiðrar okkur með nærveru sinni þegar þetta er unnið, láta aðrir hv. þm. Framsfl. ekki sjá sig í salnum og ræða ekki þessi mál.

Herra forseti. Ég sagði áðan að þetta væri eitt merkilegasta þingmál sem hefði komið fram síðustu missiri. Ég tel svo vera. Það er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa verið í fylkingarbrjósti fyrir flutningi á svona málum og ég verð að segja alveg eins og er að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem er arkitekt að þessari þáltill., á heiður skilinn fyrir að koma því á. (Forseti hringir.) Ég óttast það hins vegar, herra forseti, að hv. Alþingi greiði þessu ekki atkvæði frekar en ýmsu öðru sem er til bóta fyrir þessa þjóðfélagshópa.