Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 16:39:44 (5456)

2001-03-08 16:39:44# 126. lþ. 85.10 fundur 207. mál: #A afkomutrygging aldraðra og öryrkja# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra verður að horfast í augu við það hvernig hún hefur verið að fara með kjörin hjá lífeyrisþegum. Eldri borgarar hafa lýst því yfir og hafa reiknað það út að á sama tíma og tekjutrygging og grunnlífeyrir hækkuðu um 23%, þá hækkuðu lyfin um 120%. Þetta eru tölur sem ekki hafa verið teknar til baka. Hæstv. ráðherra verður náttúrlega að horfast í augu við það. Ég get nefnt fleira sem hún ætti aðeins að huga að. Hún fækkaði bifreiðastyrkjum um helming, þó að hún hafi fjölgað aftur um nokkra styrki rétt fyrir kosningar. Það er líka búið að gera bifreiðalánin mun erfiðari fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir, lánakjörin verri. Það hefur ekki verið lagað. Ég get haldið áfram að telja ýmislegt fleira. Það hefur verið aukinn símkostnaður á lífeyrisþega. Það þarf ekki að taka bara lyfin. Útgjöld lífeyrsþega hafa aukist verulega í tíð þessa hæstv. ráðherra, herra forseti, þannig að hæstv. ráðherra verður bara að gjöra svo vel að horfast í augu við það. En ég ætla að vona að hæstv. ráðherra muni síðan standa við þau loforð um að hún muni bæta kjör lífeyrisþega eins og margoft hefur verið lofað. En hæstv. ráðherra hefur svo margoft lofað ýmsu og ekki staðið við það að maður veit náttúrlega ekki hvort beri að treysta því algjörlega. Ég minni á það þegar hún lofaði því á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins forðum að afnema ætti tekjutengingu við tekjur maka hjá lífeyrisþegum. Og þó að það kæmi hér hæstaréttardómur sem kvað á um að það skyldi gjört, þá var það ekki gert. Þannig að það er nú svona og svona með loforðin hjá þessari ríkisstjórn.