Gerð neyslustaðals

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 17:05:49 (5464)

2001-03-08 17:05:49# 126. lþ. 85.12 fundur 239. mál: #A gerð neyslustaðals# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um gerð neyslustaðals, en tillöguna flytja ásamt mér nokkrir aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Gísli S. Einarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Össur Skarphéðinsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að vinna að gerð samræmds neyslustaðals um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld við ýmsar ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja velferðarkerfisins. Þessi neysluviðmiðun verði einnig lögð til grundvallar greiðsluáætlun og greiðslumati hjá lánastofnunum, svo og innheimtu vangoldinna skattskulda og meðlagsgreiðslna einstaklinga.

Nefndin verði m.a. skipuð fulltrúum Hagstofu Íslands, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og Neytendasamtakanna.`` --- Niðurstöðu nefndarinnar á að leggja fyrir Alþingi, eins og hér segir, herra forseti, í ársbyrjun 2002.

Eftir þessum neyslustaðli, herra forseti, hefur verið kallað af ýmsum aðilum. Ég nefni t.d. Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, ég nefni nefnd á vegum félmrh. sem var einmitt að fara yfir, ef ég man rétt, reynsluna af Ráðgjafarstofunni sem þá hafði starfað í einhvern tíma, en það er einmitt verkefni hennar að fara yfir greiðsluáætlanir heimila, skuldastöðu og greiðslumat. Það var fljótlega eftir að sú ráðgjafarstofa komst á laggirnar sem hún sá hve sárlega vantaði samræmdan neyslustaðal í þjóðfélaginu.

Tilgangurinn með neyslustaðli, sem þarf að vera samræmdur og taka mið af fjölskyldugerð og fjölskyldustærð, er að vera leiðbeinandi fyrir stjórnvöld og viðmiðunargrundvöllur við ýmsar ákvarðanir sem tengjast rétti til bóta. Hvað erum við að tala um, herra forseti? Við erum að tala um t.d. í skatta- og almannatryggingalögum sem og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum. Og ekki síður á þessi neyslustaðall að vera grundvöllur greiðsluáætlunar og greiðslumats hjá lánastofnunum, þar með talið Lánasjóði íslenskra námsmanna og við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda.

Núna er þetta þannig, herra forseti, sem sýnir okkur hringavitleysuna í þessu öllu saman, að hið opinbera tekur mið af fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar, styrkveitinga, svo og við mat á greiðslugetu vegna fjárhagserfiðleika.

Fyrsta viðmiðunin er í tryggingakerfinu eins og við höfum verið að fara yfir hér á þessum degi. Aðra viðmiðunina finnum við hjá fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna í þeim staðli sem sveitarfélögin nota fyrir fjárhagsaðstoð sína. Þriðju viðmiðunina, sem er allt önnur, sjáum við hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Fjórðu viðmiðunina sjáum við hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Fimmtu viðmiðunina sjáum við síðan hjá Íbúðalánasjóði og Hagstofan gerir síðan reglulega neyslukannanir þar sem kemur út allt annar grunnur á nauðsynlegri framfærsluþörf fjölskyldunnar heldur en endurspeglast í þeim mörgu framfærslugrunnum sem hinar ýmsu opinberu stofnanir taka mið af.

Ekki einu sinni stofnanir sem fjalla um sama viðfangsefni nota sama neyslugrunninn. Við getum tekið sem dæmi samanburð á síðasta ári á framfærslukostnaði samkvæmt lágmarksframfærslugrunni sem Íbúðalánasjóður byggir greiðslugetu fólks á sem var þá, miðað við framfærslukostnað hjóna með tvö börn, 108 þús. kr., en fyrir sömu fjölskyldu miðar Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna framfærsluþörfina 140 þús. kr. Þarnar munar 32 þús. kr. á því sem Ráðgjafarstofan telur að sé framfæsluþörf sömu fjölskyldu og því sem Íbúðalánasjóður metur. Og síðan þegar Hagstofan skoðar þessa sömu fjölskyldu byggir hún á því að neysluþörf eða framfærsluþörf hennar sé 242.000, og þar munar nú hvorki meira né minna en 100.000 kr. í neyslugrunni hjá þessari sömu fjögurra manna fjölskyldu. Ráðgjafarstofan segir 140 þús., Íbúðalánasjóður segir 108 þús. og Hagstofan segir 242 þús. fyrir alveg sömu fjölskyldu.

Þetta endurspeglar náttúrlega í hnotskurn það vandamál sem við erum að glíma við. Ég tók eftir að í því máli sem við vorum að ljúka áðan um almannatryggingakerfið, fór 5. þm. Austurl., Þuríður Backman, einmitt inn á nauðsyn þess að koma á slíkum samræmdum neyslustaðli og taldi upp þau rök sem ég hef verið að nefna fyrir þörfina á síkum neyslustaðli.

Það er auðvitað grundvallaratriði að slík samræming sé til staðar í hinum ýmsum stofnunum í þjóðfélaginu sem fjalla með einum eða öðrum hætti um ákveðinn grunn sem bætur taka mið af, hvort sem það er í skattkerfinu, varðandi meðlagsgreiðslur einstaklinga, viðmið um greiðslumat hjá lánastofnunum eða framfærsluþörf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Alls staðar í kringum okkur, herra forseti, og það kom fram í skýrslu á vegum félmrh. í febrúar, er til slíkur neyslustaðall í löndunum sem við berum okkur saman við.

Ég vil nefna það sem segir í skýrslu starfshópsins, með leyfi forseta:

,,Á Norðurlöndunum og víða í Evrópu er notuð ,,neysluviðmiðun`` til leiðbeiningar um mat á greiðslugetu fólks. Neysluviðmiðun á að gefa til kynna áætluð útgjöld fjölskyldu miðað við viðurkennda neyslu eða neyslumynstur fyrir ólíkar fjölskyldugerðir og stærðir. Að baki liggja rannsóknir og úttekt á því hvað heimili, með mismunandi samsetningu fjölskyldunnar eftir kyni og aldri, þurfa til framfærslu.

Í Svíþjóð og Noregi hefur verið lögð mikil vinna í þróun og vinnslu viðmiðunarneyslu á sl. 20 árum. Þar hefur verið tekið mið af neysluviðmiðun heimilanna þegar ákvarðaðar eru bætur skattalaga, ákvæði réttarfarslaga, svo sem lög um skuldaaðlögun og reglur um heimildir sýslumanna til að draga af tekjum manna vegna vanskila hjá lánastofnunum og opinberum aðilum, t.d. vegna skatta og meðlagsskulda. Þá er neysluviðmiðun grundvöllur greiðslumats hjá lánastofnunum og fjárhagsráðgjöfum banka og á vegum sveitarfélaganna auk áætlanagerðar hjá heimilunum sjálfum.``

Þarna er skipulega, herra forseti, tekið á málum. Hérna er þetta allt út og suður hjá okkur og enginn getur hent reiður á á hverju framfærsluþörf fjölskyldunnar byggir. Maður veltir því fyrir sér hvernig standi á því að ekki skuli fyrir löngu kominn á slíkur framfærslugrunnur eða samræmdur neyslustaðall. Því það eru svo margir þættir, herra forseti, í þjóðfélaginu sem þarf að skoða út frá framfærsluþörf fjölskyldunnar að útilokað er að nokkurt vit sé í hlutunum meðan á málunum er tekið eins og ég hef lýst.

Við getum einnig nefnt eitt sem sýnir hvað þetta er út úr kortinu hjá okkur. Ef skattalögin eru skoðuð, t.d. innheimta þinggjalda á árinu 2000, þá er að finna heimildir fyrir innheimtumenn til að krefjast þess að launagreiðendur haldi eftir hluta af kaupi launþega til lúkningar á skattaskuldum, þ.e. þeim gjöldum sem launþegar bera sjálfskuldarábyrgð á og ber að innheimta. Tekið er fram að aldrei megi halda eftir meira en 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni vegna tekjuskatts og útsvars. Jafnframt er tekið fram að afdráttur af launum til staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti af launum eldri skattskulda og gjalda. Þetta ákvæði er mjög óréttlátt gagnvart fólki með lágar eða miðlungstekjur sem lent hefur í miklum fjárhagserfiðleikum og með því er oft komið í veg fyrir að fólk geti unnið sig út úr vandanum. Má í því sambandi nefna að forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hefur einmitt bent á ósveigjanlega og harða innheimtu opinberra gjalda öfugt við sveigjanleika og samningsvilja lánastofnana gagnvart einstaklingum sem eru að vinna sig út úr vanskilum og miklum fjárhagserfiðleikum. Ég vil líka geta þess að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis lagði fyrir þingið skýrslu um úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtusviði tollstjórans í Reykjavík þar sem þetta ákvæði er eitt af því sem nefndin bendir á að þarfnist úrbóta. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

[17:15]

,,Nefndin leggur til að reglur um frádrátt af launum gjaldenda vegna ógreiddra skatta verði endurskoðaðar. Nú mun alltaf vera krafist fulls afdráttar, þ.e. að launagreiðandi haldi eftir 75% af heildarlaunagreiðslu. Er ljóst að sú framkvæmd gengur ekki upp gagnvart fólki með lágar eða miðlungstekjur, enda hafa launagreiðendur í mörgum tilvikum ekki sinnt þessari skyldu sinni. Tekur nefndin undir hugmyndir sem tollstjóri kynnti á fundi nefndarinnar um að tekið verði tillit til aðstæðna gjaldenda, t.d. framfærslukostnaðar og greiðslubyrði.``

Maður veltir fyrir sér hvaða framfærslukostnað eða neysluviðmiðun tollstjóri noti þá, sennilega væri það sjötta eða sjöunda neysluviðmiðunin.

Þetta er ótækt og kemur líka fram, ekki bara í skattalögum heldur líka hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hlutverk hennar er m.a. að innheimta hjá meðlagsgreiðendum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna. Innheimtustofnun hefur heimild til að krefjast þess að launagreiðandi haldi eftir hluta af launum vegna meðlagskrafna. Þar má finna ítarleg ákvæði um innheimtu meðlags. Við þekkjum ófá dæmi um að meðlagsgreiðendur séu hundeltir. Svo hátt hlutfall má taka af launum þeirra að þeir leiðast fremur út í svarta atvinnustarfsemi. Þeir gefa ekki upp laun sín af því að hið opinbera getur tekið svo hátt hlutfall af launum þeirra. Það er ekki einu sinni reiknað með lágmarkshlutfalli fyrir þá til að halda eftir fyrir brýnustu nauðþurftum.

Herra forseti. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því að skynsamlegt og eðlilegt sé, bæði fyrir neytendur, heimilin í landinu og hið opinbera, að ráðast í gerð slíks neyslustaðals. Ég held að þó ekki væri nema litið til sívaxandi skulda heimilanna þá séu veigamikil rök fyrir því að settar verði fram raunhæfar reglur um neysluviðmiðun sem verði leiðbeinandi fyrir ýmsar stjórnvaldsákvarðanir sem snerta kjör og afkomu fólks.

Þetta er, herra forseti, raunverulega mjög einfalt. Málið snýst um skynsamleg vinnubrögð í þjóðfélaginu, skynsamleg og samræmd vinnubrögð hjá opinberum stofnunum sem taka ákvarðanir um bætur og rétt fólks út frá framfærsluþörf. Maður veltir fyrir sér hvaða vit sé í því að hafa slíkan neyslustaðal eða neysluviðmið mismunandi, hafa hér í gangi marga neyslustaðla, sex til átta viðmiðanir eftir því hvað á í hlut hverju sinni.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái góða umfjöllun í nefndinni sem fær það til meðferðar. Hér er einungis um það að ræða að fela forsrh. að skipa nefnd til að vinna að gerð samræmds neyslustaðals um framfærslukostnað heimila eftir fjölskyldugerð sem verði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld við ýmsar ákvarðanir sem lúta að fjárhæðum bóta og styrkja velferðarkerfisins.

Ég held að það hljóti að vera útlátalaust af hálfu framkvæmdarvaldsins að styðja þessa tillögu og leggja ekki stein í götu hennar. Ég held að þetta sé ekki síður til hagsbóta fyrir stjórnvöld og framkvæmdarvaldið heldur en landsmenn. Það er eðlilegt að þessu verki komi Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og Neytendasamtökin. Það má vel vera að rétt sé að t.d. verkalýðshreyfingin komi að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Það kemur til greina í meðferð nefndarinnar að skoða þá þætti eins og aðra sem lúta að þessari tillögu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. efh.- og viðskn.