Mennta- og fjarkennslumiðstöðvar

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 17:47:45 (5468)

2001-03-08 17:47:45# 126. lþ. 85.13 fundur 263. mál: #A mennta- og fjarkennslumiðstöðvar# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[17:47]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur fylgt úr hlaði till. til þál. um mennta- og fjarkennslumiðstöðvar til að jafna aðstöðu til náms. Hún er 1. flm. að tillögunni sem hún flytur ásamt fimm öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Eins og fram kom í ræðu hv. þm. er tillagan m.a. flutt til að ýta á menntamálayfirvöld til að taka þátt í þeirri þróun sem hefur átt sér stað, þ.e. ganga í takt við það sem er að gerast víða úti á landi og að sjálfsögðu á höfuðborgarsvæðinu líka. Ég ætla ekki að endurtaka það en hér var lesið upp úr svokallaðri byggðaáætlun um stefnu í þessum málum, sem stjórnvöld hafa að mínu mati gert lítið í að fylgja. Menn lifa ekki á áætlunum einum saman. Menn lifa heldur ekki á loforðunum sem gefin eru í þessari byggðaáætlun. Líf þeirra ræðst af því hvort eitthvað af þessu kemur til framkvæmda.

Þetta er stórkostlega mikið byggðamál og í raun er alvarlegt að menntamálayfirvöld skuli ekki hafa farið miklu fyrr af stað í að nýta sér þá miklu þekkingu sem til staðar er, t.d. frumkvöðlastarf eldhuga eins og Hauks Ágústssonar, sem hefur starfað við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég minnist þess þegar þingflokkur Samfylkingarinnar var á ferð í Norðurl. e. og átti m.a. fund í Verkmenntaskólanum. Þar flutti Haukur Ágústsson, mikill frumkvöðull á fjarkennslusviði, okkur pistilinn ef svo má að orði komast. Maður dáðist að þeim mikla eldmóð, þrautseigju, dugnaði og framsýni sem sá maður sýndi og reyndar skólinn, Verkmenntaskólinn á Akureyri og skólayfirvöld þar. Þvílíkur kraftur og þvílíkar hugmyndir. Þetta þarf að nýta til að koma áætlunum um fjarkennslu í framkvæmd.

Eins og fram kemur í grg. væri kannski ýmislegt öðruvísi á landsbyggðinni ef brugðist hefði verið nógu snemma við hinni miklu atvinnuháttabreytingu sem orðið hefur hin síðari ár vegna takmarkana og breytinga á tveimur höfuðatvinnuvegum landsbyggðarinnar, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði. Hefðu menn brugðist við á sama tíma og sett aukinn kraft og fé sérstaklega í endurmenntun vegna breytinganna hefði það gefið fólki á þessum stöðum kost á að nýta sér tæknina til endurmenntunar og annars slíks. Þá hefðu kannski ekki eins margir flutt frá landsbyggðinni, gefist upp og farið sökum þess að vinnu vantaði.

Það er náttúrlega mikið réttlætismál að fólk á landsbyggðinni þurfi ekki endilega að bregða búi og flytja hingað á höfuðborgarsvæðið til að afla sér háskólamenntunar, sem allt of oft gerist. Auðvitað á að nýta Háskólann á Akureyri sem frumkvöðul í að byggja upp fjarkennslu á háskólasviði fyrir hvern og einn.

Hér kom fram að sjómenn væru farnir að nota sér þetta í æ ríkara mæli. Það er ákaflega gaman að vita að sjómenn á fjarlægum miðum, t.d. Flæmska hattinum, skuli sitja þar um borð og stunda fjarnám í skólum á Íslandi. Það er hið besta mál.

Þingflokkur Samfylkingarinnar var líka á ferð um Vesturland ekki alls fyrir löngu. Við héldum fund á Grundarfirði og hlustuðum á lýsingu sveitarstjórans þar á því mikla framtaki í fjarnámi sem þar hefur verið ráðist í og gerir það að verkum að unglingar flytjast ekki eins snemma á brott. Þeir geta verið heima við og stundað nám á fjarkennslusviði. Á það má benda að ef menntamálayfirvöld færu skipulega yfir þetta þá væri hægt að samræma þetta hugmyndum um uppbyggingu skóla og heimavista. Það getur vel verið að engin þörf sé á að fara í stórkostlegt átak, uppbyggingu eða viðbætur á heimavistum við ýmsa skóla úti á landi vegna þess að réttara væri að nota fjarkennslu meira.

Herra forseti. Mig langar í lokin að taka eitt dæmi af litlum stað úti á landi sem Hofsós heitir. Hofósingar hafa þurft að ganga í gegnum mikla atvinnuháttabreytingu, kvóti hefur farið, fiskvinnsla dregist saman o.s.frv. Þar kem ég inn á starfsemi símenntunarstöðvanna. Þar er nokkuð athyglisvert að gerast. Forstöðumaður símenntunarstöðvarinnar þar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, hefur af mikilli elju og dugnaði sótt í sjóði Evrópusambandsins og náð í mikla og góða styrki til að taka upp kennslu og gefa íbúum á Hofsósi, sem hafa þurft að ganga í gegnum þessa miklu atvinnuháttabreytingu, kost á að stunda nám á öðrum sviðum, t.d. á sviði ferðaþjónustu, sem er nú ekki lítið atriði á Hofsósi með tilliti til Vesturfarasafnsins. Frumkvöðlastarfið sem þar er unnið og sækir í hluta af digrum sjóðum Evróusambandsins er ákaflega merkilegt framtak. Því ber að fagna og er full ástæða til að fylgjast mjög vel með þróuninni þar. Ég er viss um að þar fer fram starfsemi sem margir, og ekki síst menntamálayfirvöld, mættu læra mikið af og taka sér til eftirbreytni, hvernig menn ætla að snúa vörn í sókn á þessum sviðum. Hið alvarlegasta er að þetta skuli núna fyrst vera að hefjast, árið 2001. Þetta eru verkefni sem átti að fara í fyrir einum 10 eða 15 árum.

Það er rétt sem fram kemur í grg., herra forseti, að það ræður miklu um búsetuval fólks að ungmenni eigi kost á góðri menntun á framhaldsskólastigi. Á stöðum þar sem ekki hefur verið boðið upp á framhaldsskólanám er ekki óalgengt að fjölskyldur hugsi til búferlaflutninga þegar börn komast á unglingsár, bæði til að halda fjölskyldunni lengur saman og einnig vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir því að senda ungling að heiman eða halda tvö heimili.

Það er hárrétt sem hér kemur fram. Sá sem hér stendur hefur oft rætt um, og m.a. gagnrýnt stjórnvöld fyrir það að ekki sé veitt nægjanlega mikið fé til þess að jafna námskostnað fólks. Ég er þeirrar skoðunar að landsmenn eigi að hafa sama kost á að sækja sér nám, hvort sem þeir búa á Raufarhöfn eða í Reykjavík. Ef þessi þjónusta er ekki veitt á stöðum úti á landi þá á samfélagið að taka þátt í að jafna þann kostnað fullkomlega.