Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 18:10:05 (5471)

2001-03-08 18:10:05# 126. lþ. 85.17 fundur 292. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 45/1999. Frv. er ætlað að taka á miklu vandamáli sem komið hefur upp í Lífeyrissjóði sjómanna og fyrir því eru fyrst og fremst tvær ástæður.

Í fyrsta lagi var það árið 1981 að sjómönnum í Lífeyrissjóði sjómanna var heitið því að fest skyldi í lög að sjómenn gætu tekið lífeyri við 60 ára aldur eftir ákveðinn starfstíma til sjós. Sú gerð var hluti af félagsmálapakka til sjómanna en þá tíðkuðust mjög félagsmálapakkar við lausn ýmissa kjaradeilna og gáfu sjómenn eftir í því sambandi fiskverðshækkun til að ná fram þessari lagabreytingu. Ef ég man rétt gáfu þeir eftir um 3% af fiskverði annars vegar og af kauptryggingarhækkun hins vegar til þess að ná fram þessum félagsmálapakka.

Þessi lög voru samþykkt á Alþingi með samþykki allra alþingismanna. Hins vegar hefur lögunum aldrei fylgt nokkur fjármögnun. Sá kostnaður sem fallið hefur á lífeyrissjóðinn og á sjóðfélaga vegna hinna auknu réttinda sem lögin frá 1981 færðu sjóðfélögum hefur eingöngu bitnað á sjóðfélögunum sjálfum.

Hægt væri að vitna í margar greinargerðir frá fyrri árum um baráttu sjómannasamtakanna fyrir fjármögnun vegna þessarar lagasetningar. Til eru skjöl, bæði frá árunum 1982 og 1984, sem vitna um að menn ætluðu að finna leið til fjármögnunar. Auðvitað var leitað til ríkisins en það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir þrautagöngu sjómannasamtakanna í hartnær tvo áratugi hefur ekki fengist fjármögnun sem dugað hefur til að mæta þeim kostnaðarauka sem varð af reglunni.

Kostnaðaraukinn, sem talið er að hafi fallið á sjóðinn vegna 60 ára reglunnar, var af tryggingafræðingi á árinu 1999 metinn á 1,3 milljarða kr. sem hefði lent á sjóðfélögum. Síðan hefur það verið gert að gera þessa 60 ára reglu hlutlausa því auðvitað var ekki hægt að halda áfram að hafa regluna með því lagi að hún gengi á eignir lífeyrissjóðsins og á réttindi annarra og þess vegna var 60 ára reglan í raun og veru gerð hlutlaus. Hún var gerð hlutlaus með þeim hætti að sjómenn gátu áfram tekið lífeyri frá 60 ára aldri ef þeir höfðu starfað lengur en 25 ár til sjós en þeir tóku skerðingu á lífeyrisrétt sinn upp á 0,4% á mánuði, eða 4,8% á ári. Ef þessi jafna var sett upp annars vegar á móti manni sem var 60 ára og ákvað að taka lífeyrisrétt sinn frá 60 ára aldri þá fékk hann 24% skerðingu á lífeyrisrétt sinn miðað við annan einstakling sem hefði byrjað að taka lífeyri sinn 65 ára og ef báðir áttu sams konar rétt þegar þeir voru sextugir. Menn gátu því tekið lífeyrisréttinn sextugir en fengu hann þá skertan upp á 24% miðað við að þeir hefðu geymt sér töku lífeyris til 65 ára aldurs.

Þetta var metið svo að með þessari aðgerð væri lífeyrissjóðurinn og aðrir félagar í lífeyrissjóðnum að ekki að skaðast vegna þessarar sérreglu að því gefnu að báðir mennirnir næðu 80 ára aldri. Þannig var jafnan reiknuð út. Sem sagt að sá sem færi að taka lífeyrinn sextugur annars vegar og hins vegar sá sem færi að taka út 65 ára yrðu báðir búnir að taka út sömu upphæð í fjármunum þegar þeir yrðu áttræðir. Þannig var þessu jafnað út á sjóðfélaga.

Þetta var auðvitað ekki það sem að var stefnt með því að semja um það á sínum tíma 1981 að fá þennan félagsmálapakka. Núna standa sjómannasamtökin í því að búið er að leita til fjmrn., var gert síðast á árinu 1999 og síðan í upphafi árs 2000 um það að hvort fjmrn. vildi greiða eða gera samkomulag um að greiða þessa 1,3 milljarða inn í sjóðinn með einhverju lagi á einhverju árabili. Því var neitað og nú standa sjómannasamtökin í málaferlum við ríkið og það mál verður væntanega dómtekið í Héraðsdómi Reykjavíkur innan ekki mjög langs tíma hvort ríkið teljist skuldbundið af þeirri lagasetningu sem Alþingi setti árið 1981 um rétt sjómanna til lífeyristöku frá 60 ára aldri. Það á sem sagt eftir að reyna á hvernig sá dómur fer.

[18:15]

Annað ákvæði hefur haft mjög mikil áhrif á Lífeyrissjóð sjómanna sem er mjög sérstakt og væri rétt að gera grein fyrir því, en það er einnig hluti af vanda sjóðsins og er í raun rök fyrir því að útgerðarmenn leggi sjóðnum nokkuð til eins og frv. gerir ráð fyrir til viðbótar við þau almennu rök að þeir eru aðilar að Lífeyrissjóði sjómanna og eru þar í stjórn og hljóta að bera sameiginlega ábyrgð á lífeyrissjóðnum til jafns við sjómenn. Það er sá einkennilegi þáttur sem kemur fram í reikningum Lífeyrissjóðs sjómanna að örorkulífeyririnn er yfir 40% í þeirri útgreiðslu sem lífeyrissjóðurinn greiðir á hverju ári í lífeyri. Á árinu 1999 greiddi lífeyrissjóðurinn 42% af útgreiðslum sínum vegna örorkubóta, en á sama tíma var ellilífeyririnn 41%.

Eins og ég gat um áðan er þetta hlutfall almennt 20--25% hjá öðrum lífeyrissjóðum. Það helgast auðvitað af hættulegu starfi sjómanna að örorkuþátturinn skuli vera svo hár. En þá kemur þessi spurning: Var einhvern tímann ætlast til þess að Lífeyrissjóður sjómanna virkaði eins og tryggingafélag fyrir útgerðina að þessu leyti? Ég held að ekki sé hægt að ætlast til þess. Og þess vegna held ég að það sé komið að útgerðarmönnum að leggja sinn skerf til að mæta halla sjóðsins og skertum réttindum manna í Lífeyrissjóði sjómanna. Þessi skerðing var gerð upp á 11,5% og tók gildi 1. júní árið 2000 og síðasti hluti hennar, þar sem hún hækkar í 12%, tekur gildi í júlí árið 2001, ef ekki verður um breytta eða betri stöðu hjá Lífeyrissjóði sjómanna að ræða.

Menn hafa sett margs konar mat á hættuleg störf sjómannastéttarinnar. Meðal annars er talið að það sé 32 sinnum hættulegra að vera sjómaður en að aka um á götum Reykjavíkur, það sé 32 sinnum líklegra að menn verði fyrir slysi á sjó en að aka um á götum Reykjavíkur.

Gerðar hafa verið fleiri breytingar á lögum og reglum um Lífeyrissjóð sjómanna sem virkað hafa til lækkunar á lífeyri. Í því sambandi mætti nefna atriði eins og að hætta að miða við launavísitölu og miða í þess stað við lánskjaravísitölu. Það hafði áhrif til lækkunar á útgreiddum lífeyri úr sjóðnum.

Sem betur fer var afkoma Lífeyrissjóðs sjómanna góð á árinu 1998, um 8% ávöxtun, og einnig á árinu 1999, 12,5% ávöxtun á fé sjóðsins. Afleiðing þessa varð sú að staða sjóðsins batnaði frá því sem áður hafði verið, en þau leiðu tíðindi urðu hins vegar á árinu 2000 að ávöxtun á fé sjóðsins var mínus 0,5%. Það eykur auðvitað enn þá frekar á vandann í Lífeyrissjóði sjómanna. Þess vegna hefur verið lagt til í frv. að útgerðarmenn taki að sér að greiða 2% til viðbótar við þau 6% sem þeir greiða nú og greiðsla þeirra verði 8% í lífeyrissjóðinn. Jafnframt er lagt til bráðabirgðaákvæði um það að þessi viðbótargreiðsla sé eingöngu greidd inn til að laga stöðu sjóðsins en myndi ekki réttindi til lífeyrisgreiðslna, þ.e. til hækkunar einstakra lífeyrisgreiðslna frá gildistöku laga þessara og fram til 31. desember 2006 og á þeim tíma verði lagt mat á það hvaða stöðu sjóðurinn verður kominn í fyrir þann tíma.

Það er ein röksemd í viðbót sem ég vil draga fram í máli mínu í sambandi við mál Lífeyrissjóðs sjómanna. Það er sú staða að þeir lífeyrisþegar sem núna eru að taka lífeyri sinn skertan, verulega skertan, þá er í raun og veru verið að laga stöðu sjóðsins á tiltölulega stuttu árabili á þeim lífeyrisþegum sem núna eru að taka út úr sjóðnum, því það eru þeir sem verða fyrir skerðingu ef við gefum okkur það að meðaltalsávöxtun í lífeyrissjóðnum verði að meðaltali a.m.k. 5%, þó að árað hafi illa í ávöxtun sjóðsins á síðasta ári, þá held ég að gera megi ráð fyrir að meðaltalsávöxtun geti verið 5%. Smátt og smátt mundi staða sjóðsins lagast og innan kannski fjögurra til fimm ára eða sex ára að óbreyttu, þá væri hugsanlegt að sjóðurinn næði því að vera kominn í þessi 5% plús sem hann verður að hafa áður en hann getur farið að lagfæra réttindi sjóðfélaga. Því í lögum um almenna starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/97, segir að lífeyrissjóður megi ekki auka réttindi sjóðfélaga fyrr en staða sjóðsins, hver svo sem hann er, er kominn 5% í plús umfram framreiknaðar skuldbindingar.

Þess vegna er staðan í raun og veru þannig í Lífeyrissjóði sjómanna að nú er sá hópur sem er að njóta lífeyrisgreiðslna næstu fimm, sex árin að taka á sig verulega skerðingu. En líkur gætu verið til þess að innan fimm, sex ára væri hugsanlegt að hægt yrði að fara að slaka út auknum réttindum með því að auka greiðslurnar í sjóðinn um þessi 2% sem frv. gerir ráð fyrir og líkur væru á því að hægt yrði að lagfæra stöðu sjóðfélaga mun fyrr en ella. Og það verður náttúrlega að segjast alveg eins og er að það er ekki ásættanlegt að verið sé að leiðrétta stöðu sjóðsins á tiltölulega stuttu árabili og það lendi þá bara á þeim lífeyrisþegum sem eiga kannski ekki allt of mikil réttindi fyrir og eru að taka út lífeyri á árunum frá 1999 til 2005, 2006, að sá hópur sem núna er að taka út lífeyrisrétt sinn verði fyrir mikilli skerðingu sem síðar verði e.t.v. hægt að laga.

Þess vegna er lagt til að útgerðarmenn komi að þessu máli, bæði vegna þess hvernig lífeyrissjóðurinn virkar í sambandi við örorkugreiðslurnar og eins vegna þess að ekki er ásættanlegt að það sé bara ákveðinn hópur manna á ákveðnu árabili sem tekur á sig hallann af lífeyrissjóðnum og síðan verði eftir sex eða átta ár hægt að lagfæra réttindin til þeirra sem þá fara á lífeyri. Þetta held ég að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna að sé sjónarmið sem eigi við rík rök að styðjast og þess vegna beri að auka inngreiðslurnar í sjóðinn og lagfæra réttindi allra með því að útgerðarmenn taki á sig tímabundið ákveðna leiðréttingu. Ef ekki, þá hljóta sjómenn að fara fram á að örorkuþættinum sem hvílir á Lífeyrissjóði sjómanna verði verulega breytt og hann verði færður yfir á tryggingasviðið eða yfir til útgerðarinnar. Eitthvað hlýtur að þurfa að gera til að laga þessa stöðu.