Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 18:25:00 (5472)

2001-03-08 18:25:00# 126. lþ. 85.17 fundur 292. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil heils hugar taka undir málflutning hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar en hann hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Það er náttúrlega alveg óþolandi og samfélagi okkar ekki sæmandi að þegar sjómenn, sem hafa virkilega axlað og borið hita og þunga af hagvexti og batnandi lífskjörum þjóðarinnar á undanförnum árum, þurfa að njóta lífeyris, þá skuli þeir þar bera skertan hlut frá borði miðað við marga aðra þjóðfélagshópa. Það er okkur alls ekki sæmandi og er afar ósanngjarnt.

Ég tek því heils hugar undir það að rétta þarf hag Lífeyrissjóðs sjómanna. Ég leyfi mér að benda á þá hugmynd að það væri kannski líka eðlilegt að ríkissjóður kæmi þarna beint að með eingreiðslu eða greiðslum beint til sjóðsins til að hann væri fær um að standa við skuldbindingar sínar þegar í stað, svipað og er gagnvart mörgum öðrum þjóðfélagsþegnum. Og að sjálfsögðu er rétt að kanna það, eins og hér er lagt til, að útgerðarmenn leggi líka fram aukinn hlut. En það er alveg óþolandi, herra forseti, og okkur ekki sæmandi að íslenskir sjómenn skuli ekki eiga eðlilegan og sanngjarnan lífeyrisrétt þegar þeir koma í land og hallar undan í árum. Þetta verður að laga.