Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 18:27:36 (5473)

2001-03-08 18:27:36# 126. lþ. 85.17 fundur 292. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að frv. hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar snýst um mjög mikilvægt mál sem er lengi búið að vera til umfjöllunar í samfélaginu. Ákveðin átök hafa lengi staðið yfir um það hvernig ætti að leysa þá ákvörðun ríkisvaldsins sem á sínum tíma leiddi til þess að ákveðið misvægi varð. Þess vegna hafa menn gjarnan bent á að það hafi lengi staðið upp á ríkisvaldið að mæta sínum eigin ákvörðunum með greiðslum í sjóðinn. Sömuleiðis finnst mér eðlilegt að taka undir það að útgerðarmenn leggi þarna meira af mörkum, vegna þess að það er auðvitað laukrétt sem hv. þm. bendir hér á, að Lífeyrissjóður sjómanna hefur í rauninni svolítið aðrar og ólíkar skyldur en ýmsir aðrir lífeyrissjóðir vegna þess hve starfið er eðlisólíkt flestum öðrum störfum.

Ég hef tekið þátt í því, herra forseti, að bera hér fram nokkrum sinnum tillögur um það hvernig eigi að takast á við brottkast sem mikið hefur verið til umræðu lengi. Ég held að fyrsta tillagan sem ég flutti þess efnis og mjög í sama dúr og þær sem ég hef síðan tekið þátt í að flytja hafi verið flutt hér árið 1990. Og ég held að ég hafi verið fyrsta manneskjan hér í þinginu sem lagði það til að sjómenn fengju með einhverjum hætti að eiga andvirði þess afla sem kæmi til lands utan kvóta. Þá þegar fannst mér eðlilegt að menn leituðu að því jafnvægi sem hlýtur að vera til, sem annars vegar gerir það að hvatningu fyrir menn að koma með allan afla að landi, en umbunar þeim þó ekki svo ríkulega að það borgi sig fyrir þá. Og allt auðvitað undir þeim formerkjum að sjómenn vilja jú og eiga að fá kaup fyrir alla sína vinnu rétt eins og aðrar stéttir.

En hugmyndin hefur jafnan verið sú þegar menn hafa verið að velta vöngum yfir því hvað ætti síðan að verða um brottkastspeninganna, þ.e. þá fjármuni sem verða til þegar þessi afli yrði seldur á markaði og mönnum hefur þá gjarnan orðið það fyrir að vísa á Lífeyrissjóð sjómanna, einfaldlega vegna þess að mönnum er það auðvitað alveg ljóst að þar er ákveðin fjárvöntun vegna ákvarðana ríkisvaldsins. Eins og ég gat um áðan hafa ákveðin átök staðið um langt árabil um það hvernig þessi vandi yrði í rauninni brúaður.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir af hálfu hv. þm. kemur þessum málum enn á ný á hreyfingu og það er eðlilegt. Það væri áhugavert að vita hvernig þessi mál rekur inn í kjarasamninga þá sem nú eru í gangi. Mér er ljóst að sjómenn eru í þeim viðræðum sem þeir eru í núna fyrst og fremst að leita eftir tilteknum réttindamálum sem aðrir launþegar í landinu hafa náð í sínum kjarasamningum, en sjómenn hafa ekki fengið, en eins og við þekkjum hafa þeir ekki náð að gera kjarasamning í nokkur undanfarin skipti, heldur hefur Alþingi leyst útvegsmenn úr snörunni jafnan þegar komið hefur að ákveðnum átakapunkti. Það væri fróðlegt ef hv. þm. veit hvernig þessi mál standa nákvæmlega í þeim viðræðum sem nú eru, vegna þess að auðvitað hlýtur okkur að finnast það eðlilegt að þessi mál leystust að hluta á þeim vettvangi. Að mínu mati fríar það hins vegar ekki ríkisvaldið af því að standa ábyrgt vegna þeirra ákvarðana sem hér voru teknar fyrir margt löngu.